140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:43]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að styttingin var miklu meiri í Hvalfirðinum en hún kemur til með að vera þarna. Á móti kemur að þarna er verið að taka út mjög erfiðan vetrarveg í mikilli hæð sem hefur meira að segja í því tilliti. Ég held að það hafi meiri áhrif hvað varðar umferðaröryggi að taka út háa fjallvegi en langa og djúpa firði.

Varðandi gjaldtökuna skiptir mestu máli að þarna er möguleiki á því að innheimta veggjöld sem að mínu mati réttlætir það að taka þessa framkvæmd út úr samgönguáætlun og flýta henni. Ég deili áhuga hv. þingmanns á nýrri brú yfir Hornafjarðarfljót. Ég held að það væri gríðarlega mikilvægt verk. En þar er umferðarþunganum ekki til að dreifa. Maður sér ekki alveg fyrir sér að hægt væri að fjármagna þá framkvæmd með öðrum hætti.

Ég hef verið stuðningsmaður þess að menn reyni eftir öllum tiltækum ráðum að fjármagna framkvæmdir. Þannig var ég til dæmis hlynntur því árið 2007 þegar boðin var út smíði nýs Herjólfs í einkaframkvæmd. Þó að ekki hafi borist nægilega góð tilboð í það verk, þá hefði það sett okkur í töluvert aðra stöðu í dag. En að því gefnu að á endanum sé það þannig að ríkið sé þá að eignast mannvirkið með kaupum á tilteknum tíma, það eru aðrir sem sjá þá um fjármögnun. Í þessu tilfelli er ekki um einkaframkvæmd að því leytinu til að ræða, það sem kallað hefur verið á ensku Private Public Partnership, heldur er ríkið núna að fara út í framkvæmdir við samgöngumannvirki með öðruvísi fjármögnun en hefðbundið er.