140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom inn á stórar áhættur sem við lifum við hér á landi, eins og víðar í heiminum, út af jarðskjálftum og eldgosum. Ég held að það séu tíu þúsund ár frá því að hraun rann niður í Elliðaárdalinn og ef það gerðist aftur færum við ekkert upp þessa Ártúnsbrekku (Gripið fram í.) og þess vegna gæti komið eitthvað annað annars staðar. Við skulum ekki hugsa í svona stórkostlegum áhættum.

Það er staðreynd að framkvæmdir í mínu kjördæmi hafa verið mjög litlar og miklu minni en til stóð og jafnvel framkvæmdir sem eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir venjuleg umferðarslys, sem við ættum náttúrlega að vinna hörðum höndum við að reyna að takmarka og minnka eins og hægt er. Ég get alveg hugsað mér að vera með hv. þingmanni í því að reyna að bæta samgöngur í Reykjavík en ég vil ekki orða það við kjördæmapot. Eins og ég gat um áðan nota ég vegi alls staðar og jarðgöng alls staðar á landinu. Ég vil líta á þetta sem heildstætt vandamál sem ég vildi gjarnan að samgöngunefnd færi í gegnum og ræddi um samgönguáætlun, hvað sé skynsamlegt að gera hvar, hvar sé áhætta, hvar sé umferðaröryggi ógnað, og það yrði haft að leiðarljósi en ekki eitthvað svona, að gera jarðgöng til að stytta vegalengdina milli Akureyrar og austur á land um einhverjar mínútur.