140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni öðru sinni og nú fyrir að minna á að við erum ekki endilega sammála um alla hluti í samgöngumálum og í málefnum sem snerta byggðirnar í landinu. Það er svo sannarlega rétt og eins gott að það sé alveg á hreinu því að ég hygg að það væri hvorki gott fyrir pólitískan feril minn né hv. þingmanns að annað væri látið í veðri vaka í þinginu.

Það er auðvitað svo að við tveir og sjö í viðbót erum í þessari nefnd að fjalla um samgöngumál og þess vegna er sérkennilegt að það skuli líka vera gert á öðrum stað í þinginu, í annarri nefnd, án þess að einu sinni hafi verið leitað eftir áliti samgöngunefndar. Sú afgreiðsla samgöngunefndar sem lá til grundvallar þegar stofnað var hlutafélag með lögum á Alþingi, eða sú stofnun leyfð, var á allt öðrum forsendum en nú er. Hún var á þeim forsendum að um einkaframkvæmd væri að ræða.

Nú bið ég hv. þm. Höskuld Þórhallsson að líta upp og horfa framan í mig.