140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:13]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar að taka þráðinn upp að nokkru leyti þar sem hv. þm. Mörður Árnason hélt á honum. Nú er það svo að ég er þingmaður Suðvesturkjördæmis, fjölmennasta kjördæmis landsins, og ef hægt er að saka mig um eitthvað við vinnslu samgönguáætlunar og áherslurnar sem ég hef reynt að leggja til í þeim efnum þá er það að vanrækja fullkomlega mitt eigið kjördæmi, stór-höfuðborgarsvæðið. Það er að sjálfsögðu út frá tilteknum, mjög góðum málefnalegum rökum sem lúta að landsbyggðinni, sem lúta til dæmis að Vestfjörðum og þeirri staðreynd að þeir hafa lengi verið langt á eftir í vegakerfinu okkar og þar er sannarlega enn þá þótt um hafi verið rætt í ár ef ekki áratugi langt í land.

Þá langar mig að koma að sáttinni í samfélaginu og sanngirninni, þ.e. nú er þrátt fyrir allt tiltöluleg sátt innan þingsins um þetta verklag sem heitir samgönguáætlun, hvernig við eigum að fara að því að forgangsraða samgöngumannvirkjum. Við höfum tekið framfaraskref í þeim efnum á liðnum árum, ekki síst núna í því hvernig samgönguáætlunin var unnin í samráði við gríðarlega marga aðila um allt land áður en hún kom inn í þingið. Mig langar því að spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason þar sem hann er þingmaður Norðvesturkjördæmis: Telur þingmaðurinn að það að ýta Vaðlaheiðargöngum fram fyrir (Forseti hringir.) önnur jarðgöng, þar með talið Dýrafjarðargöng, sé tilhögun sem Vestfirðingar og íbúar Norðvesturkjördæmis geti sætt sig við, ekki síst (Forseti hringir.) í ljósi hinna mjög svo vafasömu forsendna sem það væri gert? Er ekki einmitt eðlilegt … (Forseti hringir.) Ég held áfram í síðara andsvari mínu í umræðunni.

(Forseti (SIJ): Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutímann.)