140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ef ég hef skilið þingmanninn rétt er hann ekki á móti verkefninu sem slíku, þ.e. hann er ekki á móti því að Vaðlaheiðargöng verði að veruleika. Þingmaðurinn setti ýmsa fyrirvara og athugasemdir við þá aðferðafræði sem er notuð við framkvæmdina og velti upp ákveðnum möguleikum á að fara aðrar leiðir en hér er gert. Mig langar að biðja hv. þingmann að gera í stuttu máli betur grein fyrir þeirri hugmyndafræði sem hann mælti með og, ef ég hef skilið þetta rétt, kannski lausn á þeim ágreiningi sem uppi er í málinu.

Einnig væri forvitnilegt, ef þingmaðurinn kemur því fyrir í fyrra andsvari, að hann færi einnig yfir hvort þetta sé fordæmisgefandi á einhvern hátt eða hafi önnur áhrif.