140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, honum er mikið niðri fyrir. Mér fannst það svolítið sérstakt í ljósi þess að ég skil hann þannig að hann sé fylgjandi framkvæmdinni en vilji bara fjármagna hana öðruvísi og stilla þessu þá á annan hátt upp innan ríkissjóðs en nú liggur fyrir.

Ég ætla líka að biðja hann afsökunar á því að hafa kallað fram í þegar ég fór fram á að hann fjallaði aðeins um álit Ríkisendurskoðunar. Hann sagðist ætla að gera það seinna í ræðunni en svo tók ég eftir því að hann komst ekki yfir það jafnvel þó að hann hafi átt smávegis eftir af ræðutímanum. Spurning mín er því þessi: Hvað finnst honum um álit Ríkisendurskoðunar á öllu þessu máli?