140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að ég tek enga afstöðu með eða á móti því áliti, ekki nokkra. Málið snýst ekki um það. Í mínum huga snýst það einfaldlega um þetta: Hér er lagt til að ríkið veiti 8,7 milljarða að láni inn í verkefni þar sem ríkið er eini lánveitandinn og þar að auki er hlutaféð, 600 millj. kr., að mestu leyti komið frá opinberum aðilum og ríkinu sjálfu í gegnum Vegagerðina. Ég tel að þessi framgangur geti ekki verið boðlegur fyrir þingið og ég tel reyndar, virðulegi forseti, að það sé sérstakt umhugsunar- og rannsóknarefni hvernig í ósköpunum þeim þingmönnum sem hafa verið að ýta þessu máli áfram hefur tekist að koma málinu í þessar ógöngur, hvernig þeim hefur tekist að brjóta upp alla þá mögulegu samstöðu sem hægt hefði verið að ná vegna þess að málið sjálft verðskuldar ekki þann málflutning sem lagt er upp með í þessu frumvarpi.