140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi Ríkisendurskoðun. Það er miður að ekki skuli vera fyrir hendi eitthvað skriflegt frá Ríkisendurskoðun um þetta. Ég ætla ekki að rengja hv. þingmann um það hvað Ríkisendurskoðun hefur sagt á fundi fjárlaganefndar en mér heyrist þó að það hafi verið álit á frekar takmörkuðum eða afmörkuðum, þröngum þáttum sem Ríkisendurskoðun lét í té við fjárlaganefnd, sennilega miklu þrengra en það sem umhverfis- og samgöngunefnd bað Ríkisendurskoðun um í haust.

Varðandi samanburðinn við Hvalfjarðargöng játa ég að ég vildi fyrst og fremst draga það fram að sá gríðarlegi munur á Vaðlaheiðargöngum og Hvalfjarðargöngum er að styttingin með Hvalfjarðargöngunum var margfalt meiri en sú stytting sem næst með Vaðlaheiðargöngum, sem gerir að verkum að hvati ökumanna til að fara um Hvalfjarðargöngin og sleppa Hvalfirðinum er miklu meiri en hvatinn fyrir fólk að keyra (Forseti hringir.) Vaðlaheiðargöng, (Forseti hringir.) það er ekki sambærilegt með nokkru móti.