140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður vék í ræðu sinni að greiðsluvilja hjá norðanmönnum sem ég tel mjög mikilsvert að tekið sé tillit til. Hv. þingmaður kom líka inn á það sem er alveg rétt að þegar talað var um að fara í svokallaðar einkaframkvæmdir eftir stöðugleikasáttmálann 2009 var þeim skipt í tvö félög. Annars vegar framkvæmdir á suðvesturhorninu sem gátu staðið undir sér að öllu leyti. Þá voru menn að tala um 160–180 kr. kostnað við hverja ferð og síðan voru menn að setja fram í fjölmiðlum eitthvað hærri tölu sem hleypti kannski illu blóði í marga. Þar voru nefndar 700 kr. eða eitthvað slíkt og við munum eftir því, og hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni, að þá komu einmitt heimamenn og sögðu: Nei, við viljum ekki fara í þessar framkvæmdir á slíkum forsendum, við viljum þá að staðið sé að þessum framkvæmdum eins og gert er annars staðar og þær raðist inn í samgönguáætlun.

Af hverju skyldi ég rifja þetta upp? Það er vegna þess að sú ákvörðun var tekin að stofna tvö hlutafélög í meðförum samgöngunefndar á þeim tíma. Það er nefnilega alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, það var alltaf gert ráð fyrir aðkomu ríkisins að því máli með svokölluðum skuggagjöldum, þ.e. að niðurgreiða veggjöldin, af því að það var ekki raunhæft að fara í þessa framkvæmd með tilliti til þess að veggjöldin stæðu algjörlega undir henni. Ég tek heils hugar undir þetta með hv. þingmanni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt, af því að ég hef verulegar áhyggjur af því þegar kemur að endurfjármögnun framkvæmdalánsins eftir sex ár og í landinu eru gjaldeyrishöft og lágir vextir: Telur þingmaðurinn ekki, svo gætt sé allra varúðarsjónarmiða gagnvart fjármagnskostnaði eða vaxtakostnaði, (Forseti hringir.) að fjármagna verði verkefnið til enda áður en lagt er af stað?