140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[19:10]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta er einmitt einn meginþáttur málsins. Þó að við vörum sterklega við þeirri leið sem hér er verið að leggja til og leggjumst gegn henni þýðir það ekki að við séum að segja að aldrei eigi að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga. Það getur vel verið að á einhverjum tíma þegar röðin er komin að Vaðlaheiðargöngum samkvæmt öllum eðlilegum forsendum og eðlilegri forgangsröðun í þessum efnum verði ráðist í gerð þeirra. Þegar meginforsendan er brostin verður augljóslega að taka málið í heild sinni til endurskoðunar og setja í eðlilegt samhengi.

Þá langar mig að koma að öðru sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og fór nokkuð vel og málefnalega yfir og það er þetta með að sérfræðingar Vegagerðarinnar hafi varað við því eða telji óæskilegt að fara í tvenn gögn í einu. Hv. þingmaður fór yfir nokkra af þeim þáttum sem lúta að því hvers vegna það er varasamt. Þá hljótum við að standa frammi fyrir þeirri spurningu að velja hvaða göng á Íslandi eigi að koma fyrst. Það sem talið hefur verið þessum Vaðlaheiðargöngum til tekna eru veggjöldin, þess vegna eiga þau að fara fram fyrir. Ef þau væru þá fyrstu jarðgöngin sem ýta öðrum jarðgöngum aftar í röðina, er þá verið að taka veggjöld fram yfir til dæmis umferðaröryggi sem er ein af röksemdunum fyrir Norðfjarðargöngum? Og verður ekki að fara fram miklu ítarlegri umræða um hvaða vægi veggjöld eigi yfir höfuð að hafa inni í röðun samgönguverkefna? (Forseti hringir.) Þau eiga vissulega að hafa sitt vægi, en þarf ekki að fara fram mun ítarlegri skoðun á hvaða vægi þau eiga að hafa yfir höfuð?