140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra hefur farið mikinn og virðist hvorki ráðfæra sig við kóng né prest í nokkru einasta máli. Síðast í kvöld í kvöldfréttunum valtar hann yfir samráðherra sinn, hæstv. samráðherra sinn Oddnýju Harðardóttir, og svarar fyrir hennar hönd um málefni Landsbankans. Það er ótrúlegt hvernig þessi maður virðist vera að líkjast einræðisherra. Það er alveg sama hvaða málaflokk það snertir.

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmann um að gæta orða sinna.)

Sjálfsagt. En ég vil nefna varðandi ríkisábyrgðir sem þessi einstaki ráðherra hefur dælt út, að við þurftum í lokafjárlögum 2010 að virkja 27,5 milljarða í ríkisábyrgðum. Það er náttúrlega áminning um að við verðum að fara varlega þegar verið er að veita ríkisábyrgðir. Ég ætla ekki að fara yfir fjölskyldutengsl ríkisendurskoðanda sem sagði sig frá þessu máli, en mig langar að spyrja þingmanninn hvort eitthvað sé til í því að þetta vinnulag sé valið vegna þess að þetta er kjördæmi (Forseti hringir.) hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, eða hver er ástæðan fyrir því að farin er þessi baktjaldaleið?