140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hyggilegast sé að ræða þetta í samhengi við samgönguáætlun eins og ég hef sagt áður. Varðandi lífeyrissjóðina og aðkomu stjórnvalda að þeim hefur ekki vakað fyrir ríkisstjórninni eða stjórnarmeirihlutanum að ráðskast með lífeyrissjóðina. Það er hins vegar alveg óhætt og ekki bannað með lögum sem betur fer, að ræða við lífeyrissjóðina um ráðstöfun fjármagns samfélagi okkar til hagsbóta. Það er ekkert óeðlilegt að það sé gert.

Aðkoma ríkisins að lífeyrissjóðunum er síðan með öðrum hætti. Greiðslur sem fara í lífeyrissjóðina eða renna úr þeim eru skattlagðar. Það hefur verið allur gangur á því. Um tíma voru iðgjöldin skattlögð. Síðan var horfið frá þeirri nálgun. Og það sem rennur út úr lífeyrissjóðunum er skattlagt, lífeyrisgreiðslurnar til okkar, þannig er aðkoma lífeyrissjóðanna. Ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefur aldrei reynt að ráðskast með lífeyrissjóðina, en hún hefur hins vegar viljað ræða við (Forseti hringir.) lífeyrissjóðina um félagslega ábyrga ráðstöfun þeirra fjármuna sem þar er að finna.