140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera að það sem hv. þingmaður nefndi hér geti verið einhvers konar málamiðlun í þessu máli. Ég hygg þó að ýmislegt annað standi í mörgum, þar nefni ég til dæmis það ferli sem verið hefur á málinu, það fordæmi sem er gefið þar, þann rökstuðning og þær forsendur sem eru gefnar og ýmislegt annað.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að við getum staðið frammi fyrir því, ef við horfum bara á samgöngur almennt, að þurfa að tryggja samgöngur í lofti til og frá landinu, samgöngur á sjó til og frá landinu. Ýmislegt svona getur komið upp. Og þá veltir maður fyrir sér hvort þessi regla eða aðrar reglur um ríkisábyrgðir eigi við. Ég held hins vegar, alveg sama við hvaða aðstæður og hvert málefnið er, að það þurfi að fara mjög varlega í að slaka á kröfum sem við gerum í þessu sambandi.