140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með það sem hv. þingmenn ræddu hér í andsvörum og svörum.

Ég sagði í ræðu minni í dag að í þeirri aðferðafræði sem hér á að fara eftir, að veita framkvæmdalán í stuttan tíma án þess að hafa tryggingu fyrir ávöxtuninni á lánið, fælist mikil áhætta. Það kemur klárlega í ljós í umsögn Ríkisábyrgðasjóð að þetta væri svipað og bankarnir gerðu á sínum tíma. Það var tekin mikil áhætta og fjármagnað til skamms tíma og síðan treyst á að hægt væri að fjármagna seinna til langs tíma.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir þetta með mér. Ég minni líka á það, það kemur reyndar fram í nefndarálitinu hjá þeim sem hér stendur og hv. þm. Illuga Gunnarssyni, að sennilega á miðvikudaginn í næstu viku munum við samþykkja lokafjárlög þar sem falla á ríkissjóð 28 milljarðar út af ríkisábyrgðum. Maður hélt að það væri töluverð áminning og ábending um að fara mjög varlega í þessum málum.

Hv. þingmaður kom líka inn á það að fyrirtækið þurfi ekki að greiða skatt. Verði þetta frumvarp samþykkt þarf að breyta til viðbótar tveimur atriðum, annars vegar að undanskilja fyrirtækið skattgreiðslum og hins vegar að hlutafélagið — af því að því hefur verið haldið fram að hægt sé að safna upp tapinu og svo þegar það fer að hagnast eftir langan tíma sé hægt að draga það frá en það má ekki færa yfirfæranlegt tap nema í tíu ár, þannig að það verður þá líka að breyta því. Í öðru lagi er ágætt að benda á að Spölur sem rekur Hvalfjarðargöngin þarf að greiða tekjuskatt. Ég velti því fyrir mér samkeppnisstöðunni og samkeppnislögunum gagnvart þessum tveimur fyrirtækjum.