140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja ræðu mína í tengslum við orð hæstv. innanríkisráðherra í ræðu hans áðan, en ég missti af að fara í andsvar við hæstv. ráðherra. Hann kom inn á mikið deilumál á milli okkar, mín og hæstv. innanríkisráðherra, þ.e. sameiningu svokallaðar Farsýslu og Vegagerðarinnar. Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri ofarlega í hans huga, sem ég skil mjög vel en tel að við náum seint saman í því máli. Mig langar samt að biðja hæstv. ráðherra að íhuga, ef þessi fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar gengur eftir, hvort skynsamlegt sé að ráðast akkúrat núna í sameiningu á Farsýslunni og Vegagerðinni, sem er mjög umdeild ákvörðun að mínu mati, þegar á að fara í fullt af framkvæmdum. Ég held að það sé eins og stundum er sagt einnar messu virði að íhuga það aðeins.

Hæstv. ráðherra sagði líka að vonir stæðu til að framkvæmdum við Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði yrði flýtt en auðvitað væri ekkert í hendi. Svo það fari ekki á milli mála fagna ég öllum vegaframkvæmdum, þó sérstaklega á þeim stöðum sem hafa beðið hve lengst eftir þeim. Ég er dálítið hugsi yfir þessu vegna þess að samþykktir Fjórðungssambands Vestfjarða og samgöngunefndar fjórðungssambandsins eru á þá vegu að sunnanverðir Vestfirðir eigi að ganga fyrir.

Hæstv. innanríkisráðherra hefur verið í samráði og samvinnu við heimamenn um hvað hægt sé að gera í þeirri stöðu sem upp er komin fyrst ekki var farin sú skynsama leið, að mínu mati, að fara í gegnum Teigsskóg. Þá er eftir, eftir því sem ég best veit, restin af Gufudalssveitinni fyrir utan miklar framkvæmdir við verkið Eiði–Kjálkafjörð sem eru áætlaðar á næstu þremur árum og ég fagna að sjálfsögðu. Þá er líka eftir kaflinn Þorskafjörður–Skálanes, sem oft er kenndur við Teigsskóg, þ.e. sá bútur, þótt hann sé bara hluti af verkinu.

Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra kæmi í andsvar og færi aðeins yfir stöðu mála, hvar þessi vinna stendur og hvað hann sæi fyrir sér í þeim efnum. Verður þessum framkvæmdum hugsanlega flýtt í samgönguáætlun eða er það óraunhæft vegna þess að það á eftir að fara fram svo mikil vinna í kringum þær? Mig langar að kalla eftir svari við því hjá hæstv. ráðherra.

Út af því sem var verið að tala um og hefur verið í umræðunni og stendur í samgönguáætlun verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti, að svokallað samgönguráð hefur ekki tekið allt og mikið tillit til þess sem afkastað er á þingi. Ég fór mjög vel yfir það í ræðum mínum þegar mælt var fyrir samgönguáætlun og tillögum samgönguráðs á sínum tíma og vitnaði sérstaklega í tvö verkefni sem höfðu mikla sérstöðu, annars vegar vegurinn um Öxi og hins vegar vegurinn um Fróðárheiði. Sérstaklega var hnykkt á því í nefndaráliti samgöngunefndar vorið 2010 að algjör samstaða væri um það í samgöngunefnd að þessi verkefni nytu forgangs við endurskoðun á vegáætlun. Undir þetta rituðu allir hv. þingmenn í samgöngunefnd. Síðan gerir samgönguráð ekkert með það. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það eina ferðina enn.

Mig langar að fara aðeins yfir forsögu þessa máls hér. Hæstv. innanríkisráðherra gerði það ágætlega áðan. Í upphafi, þegar var mælt fyrir þingsályktunartillögunni í maí 2008, var talað um að veggjöld gætu staðið undir helmingnum af kostnaðinum og hitt þyrfti að koma með skuggagjöldum, nýrri aðferð sem við værum að þróa sem er þekkt í Noregi og mikið notuð þar. Við höfum ekki farið hina svokölluðu skuggagjaldaleið hér á landi. Þetta kemur til að mynda fram í ræðum hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Þetta kemur líka fram í umsögn frá Eyþingi við gerð samgönguáætlunar 2010. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Stjórnin vill í því sambandi“ — þá er verið að fjalla um Vaðlaheiðargöng — „vekja athygli á því að ítrekað hefur komið fram að með öllu er óraunhæft að reikna með að veggjöld standi að fullu undir framkvæmdinni.“

Þetta er ályktun sveitarstjórnarmanna frá 18. maí 2010 þegar var verið að fjalla um samgönguáætlunina sem við erum að tala um núna í sambandi við þetta mál.

Ég sat í samgöngunefnd á þessum tíma og fór yfir það sem var sagt þar þegar við samþykktum þessi lög um hlutafélögin. Við hæstv. innanríkisráðherra fórum yfir það þegar menn skiptu upp hlutafélögunum, þ.e. stofnuðu eitt utan um stórframkvæmdirnar á suðvesturhorninu, þ.e. stofnbrautirnar, og annað um Vaðlaheiðargöng. Þegar verið er að ræða þetta mál hér og ekki eru gerðar athugasemdir við það sem ég fór yfir í ræðu minni — ég ætla að vitna í það, með leyfi forseta:

„Hins vegar er búið að bæta einni grein inn í frumvarpið sem lýtur að því að stofna má hlutafélag um framkvæmdir við Vaðlaheiði og er hlutur ríkisins allt að 51% í því hlutafélagi, sem þýðir á mæltu máli að hugsanlega muni ríkið niðurgreiða veggjöld eða vegtolla í Vaðlaheiðargöngum um allt að 51%.“

Það kom líka fram á fundi hv. samgöngunefndar að forustumenn samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra töldu að ef framkvæmdin ætti að standa undir sér að fullu þyrfti vegtollurinn að vera 1.500–1.700 kr. Því var hafnað af heimamönnum að fara í verkið í einkaframkvæmd með þeim hætti.

Ef ríkið fer að greiða niður veggjöld í Vaðlaheiðargöng með eins konar skuggagjöldum þýðir það að gjaldið verður um það bil 750 kr. Þetta nefndi ég í ræðu þegar við vorum að fjalla um þessi mál því að þá var umræðan akkúrat á þessum nótum. Ég vil vekja athygli á því að þáverandi hæstv. samgönguráðherra og hv. þingmaður, sem nú er framsögumaður nefndarálits fjárlaganefndar, sátu báðir í salnum og hlustuðu og gerðu engar athugasemdir. Þetta var nákvæmlega það sem rætt var um í hv. samgöngunefnd á þeim tíma, að það yrði að fara í framkvæmdirnar við Vaðlaheiði með skuggagjöldum. Síðan breytist málið — við þekkjum það, ég þarf ekki að rekja það þegar menn sneru af þessari braut og gerðu sér vonir um, ég átta mig ekki alveg á hvenær það byrjaði, að hægt væri að fara í þetta verkefni í einkaframkvæmd þannig að veggjöld stæðu algjörlega undir verkefninu.

Við munum líka eftir því þegar lífeyrissjóðirnir fóru í samningaviðræður. Þá var verkefninu skipt upp, annars vegar stofnbrautirnar vegna þess að þar var umferðarþunginn þannig að hægt var að fara í þá framkvæmd því að hún mundi standa undir sér. Hins vegar slitnaði upp úr viðræðum lífeyrissjóðanna og ríkisvaldsins eða stjórnvalda um að fara með Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd. Skýringarnar sem komu á þeim tíma í hv. fjárlaganefnd á síðustu dögunum við afgreiðslu fjáraukalaganna um þennan milljarð sem var upphafið voru mjög haldlitlar og nánast engar. Við afgreiðslu fjárlagagerðar sögðu menn: Förum yfir þetta seinna. Við í nefndinni fengum engar haldbærar skýringar á því hvers vegna slitnað hefði upp úr viðræðunum þegar við kölluðum eftir því og komið var með þessar tillögur á hlaupum.

Þá hlýtur að standa upp úr sú spurning sem ég er mjög hugsi yfir og hef sagt áður í þessum ræðustól að mér finnst einhvern veginn að við ætlum að plata einhvern en ég veit ekki hvern, ég átta mig ekki á því. Eru menn að plata sjálfa sig? Er verið að reyna að plata einhvern annan? Ég geri mér ekki grein fyrir því.

Eftir að fjárlaganefnd fór gaumgæfilega yfir málið er það algjörlega skýrt í mínum huga. Þar staðfestist allt það í meðferð fjárlaganefndar sem komið hafði áður fram í hv. samgöngunefnd, algjörlega. Það er útilokað að flokka þessa framkvæmd sem einkaframkvæmd. Af hverju segi ég það? Það er vegna þess að það kemur fram hjá öllum þeim aðilum sem fjallað hafa um málið, þ.e. Ríkisábyrgðasjóði, Ríkisendurskoðun staðfestir það og er sammála Ríkisábyrgðasjóði, alveg sama hver það er.

Einu gestirnir sem komu á fund fjárlaganefndar, hugsanlega tveir, og höfðu mikla trú á verkefninu og höfðu farið yfir það, þ.e. fjárhagslegan undirbúning þess, kostnaðaráætlunina, voru fulltrúar frá einum banka hér í bæ. Þeir mættu á fund fjárlaganefndar og sögðu: Við höfðum farið rækilega yfir þetta og það stenst, hvort heldur sem er vaxtastigið, umferðarspá, allir þeir þættir sem menn eru að velta fyrir sér. Það er dálítið merkilegt að einmitt það sem þessi ágæti banki sérhæfir sig í er að fara inn, greina verkefni og ná síðan í svokallaða fagfjárfesta, þ.e. þeir fara og meta verkefnið og segja síðan við fagfjárfestana: Hér er fínt verkefni sem þið getið tekið þátt í og jafnvel bankinn að hluta til. En þó svo þeir gætu sagt fyrir framan hv. fjárlaganefnd að þetta mál væri „garanterað“ og þeir hefðu mikla trú á því hafði ekki tekist að selja hugmyndina neitt lengra. Þar hlýtur maður að staldra við, maður hlýtur að staldra við það.

Eftir að farið er yfir mjög vandaða umsögn Ríkisábyrgðasjóðs en menn þaðan mættu á fund fjárlaganefndar og fóru yfir það hvernig þetta er unnið. Það er þeirra sérfag að greina fjármálamarkaðinn og þetta allt saman. Þeir komust að þeirri niðurstöðu í lok umsagnar sinnar að raunvextir á þessu verkefni vegna samsetningarinnar á láninu, annars vegar þessum 35% af greiðslunni og síðan þessu 65% „cash-sweep“-ákvæði á láninu, sögu þeir og færðu fyrir því ítarleg rök í löngu máli á undan: Okkar mat er að raunávöxtunin verði 6,8–7,3%. Það hefur enginn hrakið þessi rök— enginn, ekki nokkur maður.

Þess vegna spurði ég áðan: Hvern er verið að plata?

Fyrir mér eru einhverjir að reyna að plata sjálfa sig eða einhverja aðra vegna þess að það virðist ekki vera vilji til að setja fjármagn í verkefnið núna. Þeir hjá Ríkisábyrgðasjóði vöruðu sérstaklega við þessu og lögðu þunga áherslu á það að ef niðurstaða Alþingis yrði sú að fara í þessa vegferð að fara þá ekki leið bankanna, í skammtímafjármögnun á meðan framkvæmdirnar stæðu yfir með svokölluðu framkvæmdaláni til sex ára, heldur að tryggja fjármögnunina á verkinu til enda, annað væri stórhættulegt. Skilaboðin voru mjög skýr eins og ég skildi þau frá Ríkisábyrgðasjóði.

Stærsta áhættan í þessu máli er ef raunvextir verða með fyrrgreindum hætti. Af hverju skyldu menn segja þetta við þessar aðstæður? Nú erum við með gjaldeyrishöft í landinu. Hvar eru fjárfestingarmöguleikar lífeyrissjóðanna og annarra fjárfesta? Þeir eru mjög litlir. Þeir ná ekki raunávöxtun sinni upp á 3,5% einu sinni. Það gefur augaleið að sá sem hefur trú á þessu verkefni mundi náttúrlega fara í það. Auðvitað vakna spurningar. Þeir sem trúa því statt og stöðugt að þetta muni ganga eftir hafa sín rök fyrir því og ég ætla ekkert að gera neitt lítið úr þeim þó ég sé algjörlega ósammála þeim, af hverju hræðast þeir að sett verði hlutafé inn í félagið til að komast að lágmarki fram hjá þeim þröskuldum sem Ríkisábyrgðasjóður setur? Af hverju er hlutaféð ekki varið líka? Hvers vegna er það? Eða er einhver önnur ástæða fyrir áformum þeirra hv. þingmanna og hæstv. ráðherra sem ætla að samþykkja þetta mál (Forseti hringir.) um hvernig það eigi að ganga eftir?