140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og innihaldsríka ræðu. Hann vék nokkrum spurningum að mér í máli sínu, í fyrsta lagi varðandi sameiningu stofnana innan samgöngugeirans sem við erum ekki alls kostar sammála um.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðlegt sé að fara í umfangsmiklar kerfisbreytingar á sama tíma og ráðist er í stórframkvæmdir. Ég vil minna á að enda þótt við séum að spýta í núna með hálfum þriðja milljarði til viðbótar við það sem áður var hugsað erum við komin niður í sögulegt lágmark. Við verjum nú til nýframkvæmda 5,5 milljörðum en við komumst upp undir 20 milljarða í nýframkvæmdir fyrir fimm, sex árum í þeim efnum þannig að við stefnum ekki að neinu hámarki.

Þrátt fyrir þessar kerfisbreytingar verður unnið samkvæmt gamalkunnri formúlu, vanir menn, vönduð vinna og ekki er stefnt að því að fara nein heljarstökk heldur verður farið samkvæmt efnum og ástæðum.

Hv. þingmaður vék að samtengingu Dýrafjarðarganga og Dynjandisheiðarframkvæmda. Það er rétt, þetta verður í rauninni að hanga saman í framkvæmdaferlinu vegna þess að með þessum vegabótum erum við að tengja saman norðurfirðina og síðan suðurfirðina. Hv. þingmaður vék að því hvort ráðlegt væri að flýta framkvæmdum í Gufudalssveit. Það hygg ég ekki rétt vera vegna þess að því var hafnað að fara hálsaleiðina. Við buðum upp á það að laga Hjallahálsinn og fresta þá framkvæmdum vestar á fjörðunum til að flýta vegabótum en því var hafnað. Í stað þess var ákveðið að leita eftir kostum á láglendisvegum. (Forseti hringir.) Þá þurfum við tvö til þrjú ár til rannsókna og undirbúnings (Forseti hringir.) á vegaframkvæmdum í Gufudalssveit sem sátt gæti myndast um.