140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég vil bregðast við. Ég ætla að stilla mig um að ræða við hann um ræðuhöld hér undanfarna daga sem hann minntist á í upphafi ræðu sinnar og láta það bíða betri tíma. Ég vil fyrst og fremst ræða við hann um hvernig hann sér fyrir sér framhald málsins því að það er kannski það mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir núna. Ég get verið sammála honum um að það væri málinu til heilla og okkur öllum til gagns ef málið fengi frekari umfjöllun í nefndum, í fjárlaganefnd varðandi þá þætti sem að henni snúa og síðan hjá umhverfis- og samgöngunefnd varðandi þau mál sem lúta að samspili samgönguframkvæmda og tengslum við samgönguáætlun sem þar er til meðferðar.

Nú kynnti hv. þm Illugi Gunnarsson hér fyrr í dag ákveðnar hugmyndir sem gengu m.a. út á að það yrði ef svo má segja gengið hreinna til verks og ríkið legði aukið eigið fé inn í það félag sem um er að ræða með það að markmiði að auðveldara yrði að fá fjármögnun fyrir afganginum á almennum markaði, eða fjármálamarkaði, þannig að farin yrði í raun önnur leið að fjármögnuninni en hér er lögð til. Ég er að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að einhverjar slíkar leiðir gætu komið til greina eða hvort hann sjái fyrir sér einhverja aðra hugsanlega útfærslu.

Að lokum vil ég játa það að ég var sennilega í svipuðum sporum og hv. þingmaður þegar umræðan byrjaði um hið svokallaða „cash-sweep“ sem var (Forseti hringir.) ákveðið töfraorð í umræðunni og maður áttaði sig ekki á en hljómaði sem eiginleg óskhyggja þegar farið var að grennslast nánar fyrir um það. (Forseti hringir.)