140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Merði Árnasyni að á einhvern hátt er nauðsynlegt að láta málið taka aðra stefnu en er uppi í dag. Ég held að það sé í rauninni engum til gagns, hvorki okkur sem hér stöndum og ræðum þetta mál né málinu sem slíku, að menn standi bara og berji höfðinu við steininn og voni að úr verði göng. Ég held að óbreytt sé málið í ógöngum og full ástæða til að taka mið af þeim ábendingum sem hafa komið fram og þeim tillögum sem hér hafa verið orðaðar um hugsanlegar útgönguleiðir, ef svo má segja. Ég held að þær leiðir sem hér hefur verið vísað til séu óneitanlega skárri.

Ég er sammála því sem hv. þm. Mörður Árnason segir að það brot á grundvallarreglu sem felst í 2. gr. þess frumvarps sem við erum að ræða skapi stórhættulegt fordæmi þegar beinlínis er vikið frá grundvallarreglum eða lykilatriðum varðandi veitingu ríkisábyrgða eins og löggjöfin stendur í dag. Hættan er auðvitað sú, burt séð frá þessu máli og þeirri áhættu sem ríkissjóður kann hugsanlega að taka á sig vegna Vaðlaheiðarganga í því formi sem hér er gerð tillaga um, að skaðinn verði mikill ef menn marka þá stefnu að það sé í lagi vegna verkefna sem mönnum þykir vænt um og menn telja að séu jákvæð út frá einhverjum sjónarmiðum að ganga fram hjá grundvallarreglum um ríkisábyrgð sem nú er að finna í lögum.