140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ýmsar mögulegar lausnir hafa verið viðraðar. Ég rakti það í ræðu minni hvernig umhverfis- og samgöngunefnd hefði haft forgöngu í málinu og hefði talið eðlilegast að það færi í samgönguáætlun. Síðan gerist það að þvert gegn vilja samgöngunefndar, sem er að vinna samgönguáætlun, ákveður fjármálaráðherra að leggja þetta frumvarp fram. Það fer til fjárlaganefndar og nefndarálit kemur þaðan og er síðan komið hingað inn í þingið og stefnir í algerar ógöngur. Eðlilegast væri að vísa málinu í vinnslu með samgönguáætlun en einhvern veginn þarf að koma málinu út úr þeim ógöngum sem það er í. Menn hafa viðrað ýmsar hugmyndir í því sambandi, t.d. hv. þingmenn Mörður Árnason og Illugi Gunnarsson. Mín skoðun er sú að eðlilegast sé að þetta vinnist með samgönguáætlun eins og margir hafa bent á en einhvern veginn þarf að koma málinu út úr þeim ógöngum sem það er komið í hér í þinginu. Hugsanlega væri mögulegt að fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd settust saman yfir málið. Mér fyndist ekki ósennilegt að skynsamlegasta niðurstaðan út úr því yrði sú að þetta yrði unnið með samgönguáætlun.

Varðandi þær gangaframkvæmdir sem eru í gangi hefur komið fram að Vaðlaheiðargöng eru ekki í forgangi þegar horft er til annarra framkvæmda. Bæði Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng ættu að vera framar í röðinni ef verið væri að vinna þetta mál út frá umferðaröryggi, byggðasjónarmiðum og samfélagslegum sjónarmiðum sem hafa ríkt við vinnslu samgönguáætlunar. Þetta verk var tekið út fyrir sviga vegna þess að það ætti að standa undir sér fjárhagslega. Allt bendir þó til þess að það muni ekki gera það og því er eðlilegt að það fari inn í þá forgangsröð sem ætlunin er að (Forseti hringir.) liggi að baki framkvæmdum af þessu tagi. Þá er málum að öllum líkindum þannig háttað (Forseti hringir.) að bæði Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng ættu að vera framar í röðinni. Þannig er málið vaxið.