140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:03]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Eftir veturinn virðist sumarið vera komið hjá okkur Íslendingum og gott veður er í kortunum. Sömu sögu er hægt að segja um íslenskt athafnalíf. Eftir harðindi og efnahagshrun er viðspyrnan hafin af krafti og spár líta vel út. Fyrir þremur árum var landið á barmi upplausnar. Bankakerfið og byggingargeirinn horfið, gengi krónunnar fallið um nálægt 40%, verðbólga stóð í 18%, atvinnuleysi 9%, um 60% fyrirtækja voru gjaldþrota og þriðjungur heimila hafði misst allt sitt sparifé. Halli á fjárlögum var 216 milljarðar kr.

Það hefur sannarlega rofað til. Spár gera ráð fyrir um 3% hagvexti árið 2012 og um 3% hagvexti 2013. Það er tvöfalt meiri hagvöxtur en að meðaltali hjá þróuðum hagkerfum. Atvinnuleysi fer minnkandi, er næstlægst á Norðurlöndunum og á pari við Þýskaland. Kaupmáttur launa hefur aukist um 5,1% á síðasta ári og á næsta ári verður komið jafnvægi í rekstur ríkissjóðs.

Við þessa aðlögun að veruleikanum höfum við jafnaðarmenn reynt að verja þá sem eru með lægstu tekjurnar. Þannig höfum við hækkað lægstu bætur lífeyrisþega um 60–70% frá hruni og framlög til almannatrygginga hafa aukist um 50% á síðustu fimm árum. Þá höfum við breytt tekjuskatti einstaklinga með þeim hætti að frá hruni hefur tekjuskattur lækkað hjá um 60% launamanna. Þannig greiðir nú stór hluti almennings lægra hlutfall af tekjum sínum í skatta í dag en hann gerði árið 2008. Með þessu reyndum við að verja þá tekjulægri gegn afleiðingum hrunsins.

En það eru ekki bara efnahagsmálin sem hafa haldið okkur uppteknum. Lýðræðisumbætur eru ekki síður mikilvægt verkefni. Þar höfum við til dæmis unnið að ritun nýrrar stjórnarskrár. Frá lýðveldisstofnun hefur margoft verið reynt að breyta stjórnarskrá Íslands en allar verulegar breytingar hafa mætt mikilli andstöðu á Alþingi, alþingi sérhagsmuna eins og einhver mundi kalla það. Þess vegna þurfti að taka verkefnið út fyrir sali Alþingis og til þjóðarinnar. Næsta haust verður stigið stórt skref á þeirri leið þegar þjóðin fær að segja hug sinn til stórra álitamála í nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef Alþingi mun ekki leggja steina í götu okkar næsta vetur munum við svo leyfa þjóðinni að kjósa um nýja stjórnarskrá samhliða næstu alþingiskosningum.

Virðulegi forseti. Í vinsælu dægurlagi frá árinu 1977 söng Diddú með Spilverki þjóðanna á þessa leið:

Líf mitt er greypt

í malbik og steypt

í bensín á bílinn eytt.

Hann vinnur öll kvöld

fyrir hádegi ég

of þreytt til að sofa hjá.

En húsið mjakast upp.

Gleypir mig, gleypir hann.

Svona birtist veruleikinn Spilverkinu, kynslóðinni sem fæddist um miðja síðustu öld, endalaust streð og basl við að ná endum saman og allur peningurinn og allur frítíminn fór í að byggja hús. Ég er viss um að unga fólkið sem hefur komið inn á húsnæðismarkaðinn á undanförnum árum getur tekið undir hvert orð í þessu dægurlagi. Allt sparifé horfið og skuldafangelsi verðtryggingar, verðbólgu og íslenskrar krónu staðreyndin ein.

Svona birtist veruleikinn ungu fólki 1977 og hefur í raun birst ungu fólki á Íslandi með svipuðum hætti allar götur síðan. Basl og meira basl og er að óbreyttu, ef stjórnmálamenn bregðast ekki við, basl um alla framtíð fyrir þá sem hyggja á kaup á húsnæði.

Það sjáum við best ef við skoðum stöðu ungs fólks sem keypti íbúð fyrir tíu árum og tók til þess 10 millj. kr. lán. Það hefur í dag greitt rúmar 8 milljónir inn á lánið, en enn standa eftir 16 milljónir ógreiddar. Það er tvöfalt meira en ef unga fólkið ætti heima í landi sem byggi við evru. Ungir Íslendingar þurfa nefnilega að greiða milljónir á ári aukalega fyrir að taka lán í íslenskum krónum.

Mér varð hugsað til þessarar stöðu í útskriftarveislum helgarinnar. Þar var ánægjulegt að sjá unga fólkið uppskera og halda á vit ævintýranna með prófskírteini upp á vasann. En hvar liggja þessi ævintýr? Getur þetta unga fólk hugsað sér að taka þátt í samfélagi hérna heima, stofna fjölskyldu, henda sér út í baslið og kaupa íbúð þegar við krefjum það um að greiða fyrir tvær íbúðir en eignast bara eina?

Við jafnaðarmenn höfum um langa hríð talið að besta leiðin úr þessum vandræðum, besta leiðin til að losa unga fólkið okkar undan þessu basli, sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Með þeim hætti teljum við að hægt sé að tryggja Íslendingum sambærileg lífskjör og öðrum Evrópubúum.

Um þessar mundir er hart sótt að þeim sem vilja sækja um aðild en við höldum ótrauð áfram enda teljum við hyggilegast að þjóðin fái sjálf að taka afstöðu til aðildar. Hún á að fá að kjósa um samning en ekki um stöðu viðræðna.

Skammt er í að við vitum hvernig samstarf á sviði myntmála mun líta út, hvernig hugað verði að sjávarútvegi, landbúnaði og byggðamálum í samningi milli sambandsins og Íslands. Því væri fásinna að hætta viðræðum, þvert á móti eigum við að leyfa þjóðinni að taka afstöðu til aðildar á grundvelli upplýsinga, ekki hræðsluáróðurs.

Við jafnaðarmenn viljum sækja um aðild því að við teljum að með þeim hætti verði hægt að lækka verð á mat, lækka vexti, losna undan verðtryggingu og okurverðbólgu. Þá verður hægt að veita fyrirtækjum okkar sömu möguleika til verðmætasköpunar og fyrirtækjum annars staðar í Evrópu. Þá verður hægt að ferðast án þess að það kosti hönd og fót, jafnvel hægt að splæsa í kaffibolla á Strikinu ef svo ber undir.

Það sem er þó kannski mikilvægast er að það þarf ekki að greiða 24 millj. kr. fyrir 10 millj. kr. lán.

Flestir stjórnmálaflokkar virðast vera að gefast upp á íslenskri krónu en skortir samt framtíðarsýn um hvaða valkostir eigi að bjóðast í staðinn. Þess vegna er það eitt brýnasta verkefni okkar að leiða til lykta viðræður við Evrópusambandið og sjá hvaða leiðir eru færar til upptöku nýrrar myntar.

Frú forseti. Nú höfum við lokið rústabjörgun hrunsins og tímabært að ræða langtímastefnumörkun fyrir þessa þjóð. Þar er lykilspurningin: Hvernig ætlum við að bjóða unga fólkinu okkar upp á eitthvað annað en endalaust basl? Við jafnaðarmenn viljum móta samfélag sem tekur vel á móti ungu fólki þar sem við losnum undan vítahring verðbólgu, vaxta og gengisóvissu. Við viljum móta samfélag þar sem hugað er að atvinnulífinu svo það geti skapað áhugaverð og vel launuð störf. Í framtíðarsýn jafnaðarmanna tvinnast aðild að Evrópusambandinu því að við teljum að með þeim hætti verði jöfnuður, velferð og kraftmikil verðmætasköpun best tryggð á Íslandi. Með þeim hætti viljum við berjast fyrir almannahagsmunum og hafna sérhagsmunum. Með þeim hætti viljum við tryggja velferð skuldara, neytenda, launþega, atvinnurekenda, bænda og allra þeirra sem vilja eyða minni tíma í basl og meiri tíma í að gera eitthvað skemmtilegt. Með aðild getum við tryggt og byggt upp samkeppnishæft þjóðfélag sem laðar til sín fólk og fyrirtæki með væntingar um öruggt rekstrarumhverfi, góð lífskjör og spennandi störf. En til þess þarf samfélagið öflugt nútímalegt atvinnulíf þar sem fyrirtæki í sterkum, alþjóðlegum tengslum geta þrifist en eru ekki hrakin á brott vegna óstöðugleika myntar eða vaxtakostnaðar.

Framtíðarsýn okkar lýtur að því að við sjáum tækifæri í samræmingu laga og reglna um viðskipti milli landa, í fríverslun og í nánu samstarfi við önnur ríki. Alþjóðaviðskipti eru tækifæri að okkar mati, ekki ógnun. Við jafnaðarmenn viljum móta umhverfi þar sem fyrirtæki búa við aðgengi að mörkuðum og geta leitað eftir hagstæðu fjármagni til vaxtar, umhverfi þar sem stutt er við sprota verðmætasköpunar, rannsókna og þróunar.

Við jafnaðarmenn viljum nefnilega breytingar á núverandi kerfi því að við teljum að það kerfi sem við búum við í dag sé gjaldþrota. Núverandi kerfi læsir fólk í viðjum hafta, krónu og gengishruns. Við Íslendingar erum ekki búin að leysa eitt stærsta vandamál hrunsins, hrun krónunnar og gjaldeyrishöftin. Þangað til við leysum það vandamál getum við ekki annað en boðið þorra almennings upp á endalaust basl við að ná endum saman. Þannig erum við jafnaðarmenn í raun eini valkostur þeirra sem vilja losa heimili og fyrirtæki undan oki verðtryggingar og vaxta.

Þessi tvíþætta áhersla jafnaðarmanna á jöfnuð, velferð og lífsgæði annars vegar og hins vegar verðmætasköpun byggða á öflugu atvinnulífi, athafnafrelsi og alþjóðaviðskiptum hefur sjaldan átt jafnbrýnt erindi og einmitt nú. Nú sér fyrir endann á kreppunni og tími uppbyggingar er hafinn. Leiðina til endurreisnar lífskjara og velferðarkerfis þarf að varða með fjölbreyttri atvinnustefnu þar sem áherslan er lögð á að efla verðmætasköpun, nýsköpun og fjárfestingar, með hvetjandi rekstrarumhverfi, skýrum lagaramma, öflugu menntakerfi og fríverslun.

Með því að móta samfélag sem hvílir á stöðugleika í peningamálum, nýrri mynt, öryggi í rekstrarumhverfi fyrirtækja og heimila mun okkur takast að hlúa að velferð borgaranna og stuðla að verðmætasköpun í atvinnulífinu. Það er markmið okkar jafnaðarmanna. Takist okkur að móta slíkt samfélag munum við standast samkeppni um unga fólkið með prófskírteinin. Þá munum við ekki krefja unga fólkið um að eyða tíma sínum í að vinna fyrir vöxtum og verðbólgu. Það er þannig samfélag sem við eigum að móta á Íslandi og það er þannig samfélag sem við jafnaðarmenn viljum móta á Íslandi. — Góðar stundir.