140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:42]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Gjá hefur myndast milli þings og þjóðar sem dýpkar stöðugt. Á þingi eru hugsjónir og kosningaloforð of oft látin víkja fyrir sérhagsmunum flokka og foringja. Meiri hluti þingsins hefur ítrekað farið gegn meirihlutavilja þjóðarinnar til að tryggja völd ríkisstjórnar sem meiri hluti kjósenda vill frá en þingmenn annarra flokka verja falli til að koma í veg fyrir lýðræðislegar kosningar. Hugsjónafólk í pólitík er spottað og útilokað frá áhrifum, enda ógn við ríkjandi valdakerfi, valdakerfi sem endurreist var eftir hrun af hinum svokölluðu fjórflokkum með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Endurreisn valdakerfisins var neytt upp á almenning með hótunum um að lífeyrir gamla fólksins tapaðist ef ekki yrði hér allt aftur eins og fyrir hrun. Í nafni lífeyris gamla fólksins var skjaldborg reist um þá sem fyrir hrun höfðu stöðu til að skuldsetja sig mest eða náðu að skjóta peningum undan og leggja inn á ríkistryggðar bankabækur. Reikningurinn var sendur þeim sem höfðu sýnt ráðdeild í fjármálum og misstu vinnuna þegar spilaborgin hrundi. Byrðarnar sem lagðar voru á þá ráðdeildarsömu þyngjast sífellt og stöðugt fjölgar í hópi þeirra ráðalausu sem sjá fram á vanskil og gjaldþrot.

Fjármálakreppan skapaði einstakt tækifæri til að ná fram réttlæti og jöfnuði þar sem þeir ríku töpuðu eignum og ofurlaunin hyrfu. Í stað skjaldborgar um heimilin í landinu hafa stjórnarflokkarnir ýtt undir eignatilfærslu frá skuldsettu launafólki til fjármagnseigenda með því að standa vörð um verðtrygginguna. Ofurlaunafólkið er aftur komið á kreik og launamunurinn eykst nú á kostnað kvenna og þeirra sem lægstu launin hafa.

Velferðarkerfið hefur verið skorið inn að beini í stað þess að verja það með skatti á froðueignir á leið úr landi. Margir á landsbyggðinni eiga ekki kost á grunnvelferðarþjónustu nema ferðast langar leiðir um vegakerfi sem ekki hefur verið hægt að viðhalda vegna afborgana af rándýrum og gagnslausum lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þrengingum þjóðarinnar er ekki lokið. Sterk hagsmunaöfl í þjóðfélaginu ætla að koma þúsund milljarða einkaskuld sinni yfir á almenning, annaðhvort með gengishruni krónunnar eða útgáfu ríkisskuldabréfa í erlendum myntum. Við verðum sem þjóð að rísa upp og sameinast um að koma í veg fyrir að börnin okkar verði gerð að skuldaþrælum. Hættum að bíða eftir utanaðkomandi aðstoð.

Kæru landsmenn. Sýnum samstöðu í verki og hefjum uppbyggingu samfélags þar sem hver og einn fær tækifæri til að njóta sín og lifa mannsæmandi lífi. Þjóð sem berst fyrir hagsmunum barna sinna af hugsjón á sér framtíð.