140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Sumir halda því fram að á Íslandi ríki sérstakir óvissutímar. Umræðan er líka stundum þannig hér í þessum sal að maður gæti dregið þá ályktun nánast á hverjum degi að Ísland sé alltaf um það bil að sökkva í sæ fyrir klukkan fimm. Slík eru gífuryrðin, slíkar eru oft upphrópanirnar.

Mig langar að spyrja: Höfum við, sérstaklega í þessum sal — og kannski þjóðin öll — gleymt æðruleysinu sem er svo nauðsynlegt? Erum við að missa hæfileikann til að takast á við spurningar af yfirvegun?

Ég upplifi þessa tíma ekki sem óvissutíma. Það blasa hins vegar við okkur stór og mikilvæg viðfangsefni og eins og alltaf verðum við með aðferðum lýðræðisins að taka afstöðu til þessara viðfangsefna. Það er ekkert nýtt í þessu. Og allt er þetta knýjandi. Ég upplifi það til dæmis sem eitt af stærstu málum samtímans að reyna að tryggja þjóðinni meiri arð af auðlindum sínum. Við erum rík þjóð. En það er samt eins og við eigum aldrei neina peninga. Arður af orkuauðlindunum og sjávarauðlindunum þarf að nýtast okkur betur til að búa til gott og traust samfélag. Og um þetta er vissulega deilt.

Við þurfum líka — og höfum alltaf þurft — meiri fjölbreytni í atvinnulífið. Nýkynnt fjárfestingaráætlun er stórt skref í þá átt að auka fjölbreytnina, með áherslu á skapandi greinar, rannsóknir, grænan iðnað, ferðaþjónustu. Hér er mikið í húfi.

Eitt viðfangsefnið enn er hið klassíska efnahagslega stórmál sem snýst um að koma á stöðugleika í fjármálunum á Íslandi. Skuldavandi heimilanna er afsprengi þessa eilífa íslenska efnahagsvanda. Við verðum að koma á efnahagslegu jafnvægi til að geta haft á Íslandi eðlilegan lánamarkað. Þetta blasir við.

En sitt sýnist hverjum um lausnirnar. Þessi mál þarf einfaldlega að ræða og það af yfirvegun. Þau viðfangsefni sem við glímum við, eins og til dæmis það að setja okkur nýja stjórnarskrá og taka afstöðu til aðildar að ESB, krefjast þess síðan að við tökum meirihlutaákvörðun á einhverjum tímapunkti. Og þennan feril allan þurfum við að virða og hafa trú á. Og taka þátt í honum.

Frú forseti. Það er ekki rétt að ég sé þingmaður utan flokka. Ég tilheyri nýstofnuðu stjórnmálaafli sem heitir Björt framtíð. Það er frjálslyndur, alþjóðlega sinnaður, grænn og síðast en ekki síst yfirvegaður og afslappaður, leyfi ég mér að segja, pólitískur vettvangur. Okkur langar til þess að breyta pólitíkinni, gera hana meira eins og lífið er annars staðar. Víða þarf fólk að taka ákvarðanir og tala saman. Og merkilegt nokk, það gengur víða mjög vel.

Stjórnmálin þurfa að breytast. Flokkspólitískur æsingur eins og hér ríkir allt of oft, en þó ekki alltaf, skilar engu. Hann kemur okkur bara í vont skap. Og þegar veðrið er svona gott er fáránlegt að vera í vondu skapi.

Mig langar til að segja: Hættum þessu öllu, hættum því bara. Það eru heldur engir óvissutímar, við erum bara fólk í samfélagi. Og við þurfum stundum að tala saman og taka ákvarðanir. Þannig er lífið einfaldlega.

Förum aftur til ársins 1951 þegar heimurinn var beinlínis í rúst eftir heila heimsstyrjöld. Þá gaf ungur maður út sína fyrstu ljóðabók. Fyrstu línur þeirrar bókar eiga brýnt erindi við okkur alltaf, í glímu okkar við hefðbundin mannleg viðfangsefni, spurningar stjórnmálanna, stórar og smáar. Sigfús Daðason orti:

Mannshöfuð er nokkuð þungt

en samt skulum við standa uppréttir.