140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:22]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Það er nauðsynlegt að stjórnmálamenn hlusti eftir skoðunum fólks en það hefur verið eins og einkenni á stjórnmálaumræðunni að gera fyrst og fremst það en hafa svo eiginlega enga skoðun. Of algengt er að stjórnmálaumræða sé lituð af lýðskrumi í stað þess að snúast um ígrundaða umræðu.

Stjórnarskrármálið er dæmigert fyrir slíka umræðu. Nú á, eftir þúsund manna þjóðfund, vinnu stjórnlagaráðshópsins og stjórnarskrárnefndar, enn og aftur að leggja spurningar fyrir þjóðina. Málið hefur ekki fengið neina efnislega meðferð á vegum þingsins og enginn úr stjórnarmeirihlutanum talar fyrir efnislegum breytingum. Þingmenn meiri hlutans hafa ekki svarað krefjandi spurningum um tillögur stjórnlagaráðs, svo sem hvernig hagsmunir landsbyggðar verði tryggðir komi 60% þingmanna af höfuðborgarsvæðinu. Hvað felst í orðinu þjóðareign? Er það ríkiseign og á þá ríkið auðlindir, Vatnsveitu Kópavogs og Orkuveitu Reykjavíkur? Hvað felst í því að fella þjóðkirkjuna úr stjórnarskrá?

Allt það sem nú á að spyrja þjóðina um í þessu máli er svo loðið að niðurstöðuna er hægt að túlka út og suður. Með þessum vinnubrögðum er verið að fara hina ógeðfelldu leið lýðskrums. Mestan skaða gera iðulega þeir sem vilja og þykjast en skortir þekkingu og raunsæi.

Hjá þessum stjórnarmeirihluta ber enginn ábyrgð. Eða bar einhver ábyrgð á því að hafa teflt fram Icesave-málinu í andstöðu við 98% kjósenda? Hver ætlar að bera ábyrgð á afleiðingum sjávarútvegsfrumvarpanna og rammaáætlunar? Nú er viðurkennt að frumvörpin þurfa að taka stakkaskiptum í þinginu.

Hver ætlar að bera ábyrgð á ákæru yfir saklausum manni? Í öllum ákæruliðum utan einum var pólitískur andstæðingur fundinn saklaus en menn segja sekt í smæsta ákæruliðnum réttlæta allt umstangið. Ímyndið ykkur ástandið í landinu ef þetta væri almennt viðurkennt í sakamálum.

Með lýðskrumi og útúrsnúningum finna stjórnarherrarnir sér réttlætingu fyrir áframsetu á valdastóli, sama hvað þjóðin segir. Stjórnmálin eru í vítahring sem verður að brjótast út úr. Góð gildi og hefðir í samstarfi andstæðinga á þingi hafa verið rofin. Afleiðingarnar eru þrátefli og sjálfhelda. Nú hótar þingflokksformaður Vinstri grænna því að beita ákvæði í þingskapalögum til að hefta umræðu um mál hér í þinginu. Hvað segir þetta okkur um viðhorf meiri hlutans til þingstarfa almennt? Fyrir stuttu lét ég þau orð falla í þingræðu að þegar sósíalisminn og lýðræðið mætast verði lýðræðið að víkja. Meiri hlutinn á Alþingi á ekki samleið með lýðræðinu, það er bara hans lýðræði sem skal gilda. Ekkert lýðræði í ESB-málinu, ekkert lýðræði í Icesave-málinu, ekkert lýðræði þegar koma þarf þeirra málum í gegnum þingið. En svo er það kallað lýðræðisást þegar gera á óbindandi skoðanakönnun. Er þetta ekki hræsni?

Í landinu er hreinræktuð vinstri stjórn þar sem Samfylkingin getur ekki lengur talist jafnaðarmannaflokkur. Ráðherrar flokksins eru flestir með bakgrunn í Alþýðubandalaginu og hafa öll völd. Framtíðarsýn núverandi forsætisráðherra er ríkisstjórn fjögurra flokka og flokksbrota eftir næstu kosningar. Um það verður kosið, kjósendur verða að gera sér grein fyrir því. Slíkt ríkisstjórnarmynstur, með hóp lýðskrumara og smákonunga innan borðs, er stórhættulegt.

Næstu kosningar snúast um atvinnumál, forgangsröðun í þágu uppbyggingar í atvinnulífi landsmanna. Það er eina raunhæfa leiðin til að efla hér kaupmátt og lífskjör almennings. Tillögur núverandi ríkisstjórnar innihalda ekki þær áherslubreytingar sem við verðum að sjá. Meðferð hennar á rammaáætlun er sennilega besta dæmið um þetta þar sem þjóðarhagsmunum og faglegri niðurstöðu er kastað á glæ. Sú vinna sem nú stendur yfir um rammaáætlun er í raun einskis virði því að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa þegar náð samkomulagi um pólitíska niðurstöðu.

Forsætisráðherra hefur að undanförnu sýnt af sér ótrúlega framkomu gagnvart ákveðnum aðilum atvinnulífsins. Hún sem ætti að fara fram af yfirvegun og hafa það að markmiði að sætta aðila kýs að hella olíu á eldinn. Með uppnefnum og dónaskap er vegið að fólki í atvinnulífi. Á flokksráðsþingi Samfylkingarinnar í febrúar síðastliðnum voru dregin fram kunnugleg slagorð, eins og íhaldsöfl, forréttindastéttir, valdaklíka íhaldsafla og sægreifa, hagsmunagæsluöfl, gíslataka, grímulaus valdaklíka og óskammfeilnar þvingunaraðgerðir.

Látum það vera þó að hæstv. ráðherra hnýti í okkur sjálfstæðismenn með þessum kunnuglegu orðum, en þarna er hún að tala við fólk sem stóð meðal annars að gerð stöðugleikasáttmálans með henni á sínum tíma, sáttmála sem blekið var vart þornað á þegar ríkisstjórnin hafði rofið sáttina. Aðilar vinnumarkaðarins hafa fyrir löngu gefist upp á að ræða við þessa ríkisstjórn, svo er núna af fífldirfsku eða fávisku lögð fram ný fjárfestingaráætlun sem taka á gildi á næsta kjörtímabili. Hver tekur mark á því plaggi í ljósi reynslunnar? Það plagg er ómerkilegt innlegg í þá umræðu sem fer nú fram um grunnatvinnuvegi okkar. Dulbúnar hótanir um að ekkert verði til dæmis af framkvæmdum í vegamálum nema frumvörp um fiskveiðistjórnarkerfi verði samþykkt, loforðadúsur fyrir hina ýmsu þjóðfélagshópa og atvinnugreinar, allt í þágu þess að fá þessa aðila til liðs við sig í máli sem er klúður frá upphafi til enda. Það er kominn tími til að þessi ríkisstjórn átti sig á því að það er betra að spara gífuryrðin og fara að standa við stóru orðin. [Hlátur í þingsal.]

Hrópandi óréttlæti á sér stað í lífeyrismálum landsmanna. Sparnaður manna á langri starfsævi er mismunandi. Sumir eiga góð lífeyrisréttindi og dæmi eru um að lífeyrisréttindi ráðherra sem lengst hafa setið á þingi séu metin vel á annað hundrað milljónir króna. Það fólk þarf engu að kvíða, þau réttindi eru með ríkisábyrgð og skerðast ekki þrátt fyrir áföll í lífeyrissjóðakerfinu. Þjóðin borgar brúsann með sköttum. Svo eru aðrir sem greitt hafa í almenna lífeyrissjóðakerfið og þurfa að upplifa skerðingar á sama tíma og þeir greiða hærri skatta vegna ríkisábyrgðar í opinbera kerfinu.

Enn aðrir hafa á starfsævi sinni sparað eitthvað og eiga jafnvel skuldlitlar fasteignir eftir starfsævina. Sumt af því fólki hefur takmarkaðar tekjur og þarf nú að greiða auðlegðarskatt og neyðist jafnvel til að selja fasteign sína vegna þess. Þeir sem eiga ríflegan eftirlaunarétt, eins og til dæmis á við um þá sem lengst hafa setið á þingi, greiða engan slíkan skatt af þeim rétti sínum. Þetta óréttlæti þarf að leiðrétta. Það er engin sanngirni í því að fólk sem hefur með dugnaði og elju sparað saman á langri starfsævi sé jafnvel hrakið af heimilum sínum á ævikvöldinu.

Góðir landsmenn. Það er ástæða til bjartsýni þrátt fyrir allt. (Gripið fram í.) Það er ekki nema að hámarki tæpir 11 mánuðir eftir af lífi þessarar ríkisstjórnar. [Hlátur í þingsal.] Þá fáum við væntanlega ríkisstjórn í þessu landi sem breytir um stefnu og leysir úr læðingi þá krafta og það þor sem í þjóðinni býr. Við verðum kannski að bíða svo lengi en ég óska þjóðinni góðra stunda.