140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:46]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Nú þegar rúmlega þrjú ár eru liðin af kjörtímabili ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er ekki nema eðlilegt að lagt sé mat á það hvað hefur áunnist en þó ekki síst hvað er fram undan.

Sjaldan hefur nokkur ríkisstjórn tekið við erfiðari stöðu í þjóðarbúinu á öllum sviðum en núverandi ríkisstjórn og megnið af hennar vinnu hefur farið í einhvers konar stöðuga færibandavinnu við lausnir á aðsteðjandi vandamálum sem nóg hefur verið af. Eins og gengur hefur sumt tekist vel og annað miður og ég mun ekki fara út í einkunnagjöf hvað það varðar í þessari ræðu enda ekki tími til.

Það sem hefur þó orðið útundan á þessum þremur árum er skýr framtíðarsýn á hvert stjórnvöld vilja stefna í veigamestu málaflokkum landsins. Vissulega hefur þingsályktunartillaga um grænt hagkerfi framtíðarinnar verið samþykkt og er það vel, sem og 20/20 áætlunin sem er hið merkasta plagg og mun skipta sköpum í náinni framtíð ef í það fæst nægilegt fjármagn.

Ég lýsi hins vegar eftir framtíðarsýn í þeim praktísku málum sem varða daglegt líf fólks og sem ekki verður við unað að verði óbreytt til framtíðar. Stærsta einstaka málið þar er að sjálfsögðu skuldamál heimilanna og sá forsendubrestur sem þau urðu fyrir við hrunið, hrun sem heimilin og almenningur á ekki sök á en stjórnvöld ætla samt að láta blæða fyrir. Í þeim málum er kyrrstaða og hin 53 svokölluðu úrræði ríkisstjórnarinnar ná ekki einu sinn að hreyfa við vandanum, hvað þá að leysa hann. Þau mál verða ekki leyst með viðbótarvaxtabótum, auknum barnabótum eða fjölgun starfsfólks hjá umboðsmanni skuldara.

Húsnæðiskerfi sem er ofurselt bótakerfi almannatrygginga er og verður það brenglað að það mun aldrei ganga upp. Einfalt regluvarðað húsnæðiskerfi með skýrum lögum um fasteignaveðlán og vaxtakjör á þeim, þar sem fólk getur haft vissu fyrir því að þeirri frumþörf allra fjölskyldna að hafa þak yfir höfuðið sé sinnt, verður að vera til staðar. Það er leiðin sem þarf að fara en ekki þá leið að við fasteignakaup eða leigu þurfi fólk einnig að taka tilliti til endalausra tenginga við almannatryggingakerfið hvers tekjutengingar gera öll framtíðaráform óútreiknanleg.

Annað mikilvægt atriði er afnám verðtryggingar, fyrirbæris sem hefur gert það að verkum að þúsundir heimila hafa orðið gjaldþrota og þúsundir fjölskyldna misst allt sitt, ekki bara núna heldur í annað sinn á 25 árum. Verðtryggingin hefur valdið gríðarlegu tjóni, hún er í eðli sínu afleiða og myndi flokkast sem slík í skilgreiningum um fjármálagjörninga og það er útilokað mál að venjulegt fólk geti sinnt þeirri frumþörf að fá þak yfir höfuðið ef það þarf að gangast undir slíka samninga.

Bótavæðing allra heimila í landinu þegar kemur að húsnæðismálum og áframhald með húsnæðislánakerfi sem er ofurselt hagsmunum og stjórn fjármagnseigenda í gegnum verðtryggð lán eða óverðtryggð vaxtakjör í frjálshyggjuumhverfi er einfaldlega ávísun á áframhaldandi gallað kerfi í húsnæðismálum.

Tillögur Hreyfingarinnar í þessum málum standa fyllilega undir sínu en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa þær ekki fengið málefnalega umfjöllun á vettvangi stjórnvalda. Það er sláandi að í samtölum okkar við oddvita stjórnarflokkanna á undanförnum vikum hefur ekkert, ég endurtek ekkert, komið fram sem gefur til kynna einhverja góða framtíðarsýn í þessum málum.

Frú forseti. Annað mikilvægt mál er framtíðarfyrirkomulag við nýtingu jarðvarma og vatnsafls annars vegar og verndun náttúrunnar hins vegar eða það merkilega plagg sem kallast rammaáætlun. Rammaáætlun er merkileg, þörf og að flestu leyti vel úr garði gerð og leggur nokkurs konar hornstein að þeim ákvörðunum sem við stöndum frammi fyrir í þessum málum. Í rammaáætlun er fjöldinn allur af hugsanlegum virkjunarkostum flokkaður í verndarflokk, biðflokk, sem þarfnast frekari rannsókna, og nýtingarflokk.

Nú þegar þessi flokkun er komin í þingið til umfjöllunar er mikilvægt að staldra við og velta því upp hvort það sé eðlilegt framhald að þeir 63 þingmenn sem nú sitja á þingi taki ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag nýtingar og verndar í þessum málum um alla framtíð. Það sem verður virkjað verður ekki verndað, aldrei. Sú tilhögun að það Alþingi sem nú situr ætli sér að afgreiða þetta stóra mál á um tveimur vikum og greiða atkvæði um framtíðarumhverfi þessara mála fyrir allar komandi kynslóðir er ekki við hæfi, að ekki sé talað um að menn muni afgreiða þessi mál fyrst og fremst eftir því hvaða flokksskírteini þeir bera.

Þó vissulega megi segja að rammaáætlun sé einhvers konar framtíðarsýn þá er sú framtíð sem um ræðir einfaldlega mikilvægari en svo að við hér inni reynum í næstu viku að afgreiða hana. Nú eiga þingmenn að setjast niður og segja sem svo: Verndum það sem er í verndarflokki, sú ákvörðun er hvort eð er afturkræf ef þörf krefur. Skoðum svo bið- og nýtingarflokkinn út frá því sjónarmiði hvað við viljum virkja lítið.

Það hefur komið skýrt fram að þegar er búið að virkja meira en helming allra virkjunarkosta í landinu og að 80% af þeirri orku fer til stóriðju hvar 0,8% vinnuaflsins vinnur. Það er ekki þörf á að virkja meira nema ef vera skyldi vegna þess að hugsanlega væri hægt að græða einhvern aukapening á því. Er þeim náttúruperlum sem undir eru fórnandi í því markmiði? Ég bara spyr.

Nú þegar brennisteinsmengun frá Hellisheiðarvirkjun er farin að valda öndunarerfiðleikum hjá fjölda fólks sem og eignatjóni á höfuðborgarsvæðinu og fagstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hefur lýst starfsemi jarðhitanýtingar til rafmagnsframleiðslu sem hreinni og klárri tilraunastarfsemi, viljum við þá virkilega girða utan um allt höfuðborgarsvæðið með sjö jarðvarmavirkjunum á Reykjanesinu til viðbótar, að ekki sé talað um allar þær náttúruperlur sem þar eru undir og mundu eyðileggjast? Frú forseti. Það er ekki glæsileg sýn og ég hafna henni.

Það sem vel hefur tekist til eru drög að nýrri stjórnarskrá. Þau munu fara í almenna þjóðaratkvæðagreiðslu í haust og er mikilvægara en nokkuð annað að almenningur taki þátt og sendi Alþingi skýr skilaboð um skoðun sína á drögum að nýrri stjórnarskrá. Í þeim drögum er fólgin góð og falleg framtíðarsýn á auðlindamál og víðtækar lýðræðisumbætur sem gera munu almenningi kleift að veita stjórnvöldum hvers tíma aðhald. Það er framtíð sem Ísland þarfnast því að ónýt flokkastjórnmál eru eitthvert mesta mein sem við búum við.

Frú forseti. Framtíðarsýn fyrir komandi kynslóðir er það sem ábyrgir stjórnmálamenn eiga öðru fremur að tileinka sér. Það er siðferðisleg skylda okkar. Eltingaleikur við eigin stundarhagsmuni í eigin kjördæmum eða skammtímahagsmuni stórfyrirtækja og peningamanna er ekki það sem ábyrgir stjórnmálamenn ástunda. Allir þeir þingmenn sem inn komu í síðustu kosningum, ekki síst þeir nýju, þurfa að skoða sjálfa sig og störf sín undanfarin þrjú ár og spyrja þessarar mikilvægu spurningar: Hvert var erindið og hvað hef ég gert hingað til?