140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

ummæli stækkunarstjóra ESB um framgang viðræðna.

[10:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Auðvitað getum við hæstv. utanríkisráðherra túlkað ummæli hins ágæta manns, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, með misjöfnum hætti. Mér fundust ummæli hans ekki benda til að hann ætti eingöngu við að samningskaflar væru opnaðir heldur að línur væru farnar að skýrast, það væri a.m.k. farið að hilla undir niðurstöðu. Þegar talað er um að spilin séu komin á borðið hljótum við að gera ráð fyrir að um sé að ræða vísbendingar um líklega niðurstöðu, miklu frekar en upphaflega samningsafstöðu aðila sem getur komið fram þegar viðkomandi kaflar eru opnaðir.

Ég vildi spyrja hæstv. utanríkisráðherra um þetta aðeins nánar, sérstaklega um erfiðustu kaflana, landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál. Hver er áætlunin um opnun þessara kafla? Er öllum undirbúningi að opnun þeirra lokið?