140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-viðræðurnar.

[10:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um Evrópusambandsumsóknina. Ástæðan fyrir því að ég spyr hæstv. ráðherra er vegna þess að hann er einnig formaður annars stjórnarflokksins, Vinstri grænna. Þetta er eiginlega gáta sem mig langar til að leggja fyrir hæstv. ráðherra. Hún er svona:

Hvað eiga hæstv. umhverfisráðherra, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hæstv. innanríkisráðherra sameiginlegt? Svarið er að þessir aðilar allir, áhrifafólk í Vinstri grænum, hafa sagt að það sé full ástæða til að klára aðildarviðræður með atkvæðagreiðslu vel fyrir kosningar og jafnvel fyrir jól, hafa einhverjir sagt. Vekur það óneitanlega töluvert mikla athygli að þarna skuli fjórir aðilar og þar af tveir ráðherrar, einn fyrrverandi og nefndarformaður, lýsa því yfir að full ástæða sé til að klára þetta mál vel fyrir kosningar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann taki undir þetta með einhverjum hætti, þ.e. að það séu forsendur til að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu vel fyrir kosningar þar sem þjóðin er spurð hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki. Vitna ég þar meðal annars til þeirra orða sem féllu í umræðum í gær og hafa komið í fréttum og verið höfð eftir stækkunarstjóra Evrópusambandsins. Það er eðlilegt að mínu viti að spyrja formann Vinstri grænna og hæstv. ráðherra hvort ráðherrann sjái þennan möguleika, líkt og þessir fjórir ágætu þingmenn og ráðherrar úr hans röðum.