140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-viðræðurnar.

[10:53]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hygg að ef hv. þingmaður færi yfir það hafi verið alger samhljómur í áherslum okkar hvað það varðar að við höfum lagt á það mikla áherslu frá því að lagt var upp í sumarbyrjun 2009 að fá sem fyrst upp á borðið efnislegar niðurstöður í þessu máli, að fá niðurstöður úr þessu ferli úr því að lagt var í það á annað borð þannig að við vissum hvar við stæðum. Það er ekkert nýtt í því og þó að menn hafi tjáð sig með mismunandi hætti um það hefur það allan tímann legið fyrir.

Við lögðum til dæmis á það strax mikla áherslu að við vildum að reynt yrði að opna samhliða auðveldari köflum einhverja af stóru köflunum og þungu köflunum eins fljótt og mögulegt væri. Það eru vonbrigði að það hefur dregist í flestum tilvikum og við höfum marglýst óánægju okkar með það. Það var ekki ætlunin að málin væru enn í einhverri fullkominni óvissu þegar við nálguðumst kosningar að loknu þessu kjörtímabili. Menn höfðu væntingar um það að strax í árslok 2010 eða á fyrri hluta árs 2011 gætu þau mál verið farin að skýrast miklu meira en þau hafa gert. Ég tel þar af leiðandi enn að það sé mikilvægt viðfangsefni að knýja á um að stóru kaflarnir opnist, að sjávarútvegur, landbúnaður, matvæli, tollar og þau mál nokkur önnur, sem við vitum að verða kannski viðamest, opnist upp eða að látið verði reyna á það hvort þessir kaflar opnast upp án skilyrða. Í því eru fólgin ákveðin skilaboð. Hvernig þeir opnast, verður það án skilyrða? Ef ekki, með hvers konar skilyrðum? Verða sett lokunarviðmið eða skilyrði? Þetta eru allt mikilsverðar upplýsingar sem munu skýra efnisgrunninn sem verður þarna til staðar þó að auðvitað liggi það kannski aldrei ljóst fyrir að fullu fyrr en menn hafa lokið tilraunum til samninga. En þeim mun meira sem við vitum þeim mun betra og þá getum við betur metið það hvernig við höldum á málinu í (Forseti hringir.) framhaldinu, hvort sem það er gagnvart mögulegum kosningum eða hvernig það mun tengjast stöðu mála þegar kemur að næstu alþingiskosningum.