140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-viðræðurnar.

[10:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég velti þá fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé sammála því sem hefur komið fram að það séu allar líkur á að efnisleg niðurstaða eða efnislegar forsendur geti legið fyrir í haust varðandi þá kafla sem hæstv. ráðherra nefndi, þó að eflaust séu fleiri kaflar sem margir þingmenn eru sammála um að séu ekki síður mikilvægir. Ég veit að hæstv. ráðherra var ekki að gera lítið úr því, en er hæstv. ráðherra þá tilbúinn til að knýja það fram við til dæmis stækkunarstjóra Evrópusambandsins, sem var hér um daginn, að „efnisleg niðurstaða“, sem eru orðin vinsæl orð í dag, um þetta mál liggi fyrir í haust þannig að hægt sé að taka ákvörðun um hvort efnt verði til atkvæðagreiðslu eða ekki. Ég ítreka að ég skil þá hv. fjóra þingmenn sem ég nefndi þannig að þeir telji að það eigi að vera vel hægt að gera það með þeim hætti.