140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

eignarhald á 365 fjölmiðlasamsteypunni.

[11:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir. Nú er það svo að með nýjum lögum um fjölmiðla sem voru samþykkt á síðasta þingi er í fyrsta sinn gerð sú krafa að eignarhald á fjölmiðlum sé upplýst. Fram að því var það ekki gert. Þetta var birt í fyrsta sinn á þessu ári þar sem auðvitað kemur ýmislegt í ljós um ýmsa fjölmiðla, þ.e. hverjir eru þar að baki og hverjir eru skráðir eigendur. Hins vegar er það rétt sem hv. þingmaður bendir á að þetta lagaákvæði er ekki fullkomið og nú eru raunar til umfjöllunar í þinginu endurbætur á fjölmiðlalögum þar sem meðal annars er verið að leggja til ákveðnar takmarkanir á eignarhaldi, það séu lagðar til ákveðnar heimildir til fjölmiðlanefndar og Samkeppniseftirlits þegar kemur að því að takmarka eignarhald. Þær tillögur koma úr hópi þar sem sátu fulltrúar allra flokka sem eiga fulltrúa á þingi og þar með fylgja líka skarpari heimildir til fjölmiðlanefndar til þess að fá á hreint hið raunverulega eignarhald. Og af því að hv. þingmaður spyr þá er svar mitt við því einfalt: Mér finnst ekki að það eigi að sleppa þessu. Mér finnst mikilvægt fyrir lýðræðisríki að eignarhald á fjölmiðlum sé upplýst en ég tel hins vegar að það þurfi að skerpa á þeim ákvæðum.