140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:14]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hann aðeins út í eitt atriði sem er í fylgiskjalinu, þ.e. samningnum sjálfum sem undirritaður var að ég held í júní í fyrra. Á bls. 7 í þingskjalinu er fjallað um grunninn í þessum samningi. Samkvæmt 1. tölulið á bls. 1 þar sem inntakið í samningnum er dregið saman, eftir því sem mér skilst, segir að þetta gangi út á að stofna sjóð til að fjármagna aðstoð við umsóknarríki ESB og sé fjárhagsaðstoð við umsóknarríki. Svo segir hér, með leyfi forseta:

„… fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu …“

Þetta hlýtur að skiljast svo að verið sé að laga íslenskt samfélag og íslenskar réttarreglur að því evrópska.

Mig langar að spyrja hv. þingmann því að hérna er talað um að veita fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar umbætur í því skyni að við getum gerst aðilar að Evrópusambandinu: Hvaða tilvik sér hv. þingmaður fyrir sér að samningsaðilar, þ.e. ríkisstjórnin og Evrópusambandið, hafi haft í huga þegar samið var um að hafa þetta ákvæði þarna inni? Í hvaða tilvikum gæti verið um pólitískar umbætur að ræða hér á landi? Telur hv. þingmaður eðlilegt að ríkisstjórn Íslands semji á þennan hátt við Evrópusambandið?