140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég verð að lýsa því yfir að mér þykir í hæsta máta óeðlilegt að íslensk ríkisstjórn semji um það við Evrópusambandið að til standi að veita Íslandi fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar umbætur svo að við getum gerst aðilar að Evrópusambandinu. Svo getum við rætt um efnahagslega aðstoð og stjórnsýslulegar umbætur, en þetta atriði eitt og sér er afskaplega alvarlegt, þykir mér.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann aðeins út í markmiðin á bak við þennan samning. Ef við skoðum 3. gr. samningsins sem er á bls. 8 í þingskjalinu, að vísu í fylgiskjali, er í 1. tölulið fjallað um að samningsaðilar ætli að stuðla að samvinnu sín á milli og undirbúa aðstoðarþegann í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins. Hér vitna ég beint, með leyfi forseta:

„… þar á meðal eftir því sem við á réttarreglur þess, með aðild í huga …“

Hvað er hægt að lesa út úr þessu annað en að átt sé við að laga eigi eftir því sem við á íslenskar réttarreglur að rétti Evrópusambandsins? Ég get ekki skilið þetta á annan hátt. Ég get ekki skilið hvernig þeir sem harðneita því að verið sé að aðlaga Ísland, réttarreglur Íslands og samfélag okkar, því evrópska. Get ég skilið þetta á annan hátt en að hér standi svart á hvítu: Það er aðlögun í gangi, Ísland er laga sig að Evrópusambandinu? Hér stendur þetta svart á hvítu, undirritað af ríkisstjórninni.