140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ein af þeim spurningum sem við höfum kallað eftir svörum við í þessari umræðu. Við höfum reynt að fá svör við því hvað felist nákvæmlega í því að þiggja þessa styrki og hvað felist nákvæmlega í þeim markmiðum og þeim skilyrðum sem sett eru fyrir styrkjunum. Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvað „þar á meðal eftir því sem við á réttarreglur þess“ þýðir? Ég skil það þannig að breyta þurfi væntanlega hraðar einhverjum lögum og reglum sem gilda á Íslandi og aðlaga reglum Evrópusambandsins, meira en áður hefur verið, og þykir sumum reyndar nóg um.

Það sem ég staldraði helst við er að hér stendur eins og hv. þingmaður las upp, með leyfi forseta:

„… undirbúa aðstoðarþegann […] í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins, …“

Erum við endilega sammála stefnumiðum Evrópusambandsins? Erum við sammála stefnumiðum Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum? Erum við sammála stefnumiðum Evrópusambandsins þegar við horfum til utanríkisstefnu þess í sambandi við Sýrland, Líbíu o.s.frv.? Erum við sammála Evrópusambandinu um það hvernig stefnumið þess er varða lýðræði innan Evrópusambandsins hafa þróast í meiri miðstýringu og minna lýðræði? Ég segi nei. Ef það sem við eigum að nota þessa fjármuni í er að aðlaga íslenskt samfélag því sem ég kalla gallaða hluti og gölluð stefnumið Evrópusambandsins erum við náttúrlega á enn verri leið en ég held að margir hafi talið.

Í 3. gr. stendur að markmiðið sé að undirbúa aðstoðarþegann „í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins“. Það er einfaldlega þannig. Við göngum að einhverju sem er tilbúið og eigum laga okkur (Forseti hringir.) að því.