140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég er í andsvari við þingmann úr sama kjördæmi. Í fyrsta lagi vil ég segja um þá aðlögun sem fer fram í aðlögunarferlinu, ef við orðum það eftir mínu höfði, hvort hún sé óafturkræf ef ég skil hvað hv. þingmaður var að spyrja um, að ég er ekki viss um að hún sé óafturkræf. Til hvers erum við annars að eyða tíma og fjármunum í að breyta hér kerfum, aðlaga stjórnsýslu, breyta lagaumgjörð og öðru slíku? Það getur tekið tíma að vinda ofan af því ef við kjósum svo, ef við greiðum atkvæði gegn því að fara þarna inn.

Ég vil líka segja annað, frú forseti. Það er þekking til staðar á Íslandi um þær áætlanir Evrópusambandsins og ýmislegt annað sem Íslendingar kaupa sér aðild að. Íslendingar hafa verið nokkuð duglegir að kaupa sér aðild að áætlunum Evrópusambandsins og eftir því sem ég best veit koma þeir út í plús sem er að sjálfsögðu ánægjulegt. Það er töluverð þekking á Íslandi um hvernig á að nálgast þessa aura þannig að ég held að það skipti ekki öllu máli.

Eitt vil ég fá að segja varðandi orð þingmannsins um lífskjör sem Evrópusambandið á að jafna. Ég held að Evrópusambandinu hafi fyrst og fremst tekist að tryggja sæmilegan frið milli aðildarríkja sinna. Evrópusambandinu hefur hins vegar ekki tekist að jafna lífskjör. Við þurfum ekki annað en að horfa á lönd Evrópusambandsins til að sjá það, hvort sem við horfum á Írland, Spán eða einhver önnur ríki. Það er ekkert búið að jafna lífskjör í þessum löndum. Margir íbúar þessara landa telja í dag að þeir væru betur komnir með þau lífskjör sem þeir höfðu áður, svo ég nefni ekki landið sem allir nefna, í Suðurhöfum, (Forseti hringir.) þar sem lífskjör eru nú allt annað en jöfn miðað við önnur Evrópuríki.