140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Verkefnið að jafna lífskjör er vísast þess eðlis að það nær líklega aldrei fullkomnun, en mér þykir hv. þingmaður horfa dálítið fram hjá því hvernig til tókst með að jafna lífskjör gagnvart austantjaldslöndunum sálugu þegar þau gengu í Evrópusambandið. Mér fannst það mikið afrek. Í því verki sýndi Evrópusambandið sínar sterkustu hliðar. Lífið er að sjálfsögðu ekki þrautalaust þegar kemur að þessu. Ég er bara að lýsa þeirri meginhugsun sem býr að baki sambandinu.

Mér finnst athyglisvert að hv. þingmaður viðurkennir að líklega gerist ekkert óafturkræft í þessum aðildarviðræðum. Þannig hef ég líka skilið það. Ég hef verið að fara yfir það í huganum og get ekki í fljótu bragði og ekki heldur þegar ég hugsa um það af dýpt nefnt neitt sem ég tel vera óafturkræfar breytingar á íslensku samfélagi út af aðildarviðræðunum. Fyrst svo er ekki finnst mér miklu minni ástæða til að hafa áhyggjur af þessu aðlögunarhugtaki sem svo mjög er haldið á lofti. Aðlögunin að Evrópusambandinu er svo miklu meiri í gegnum EES-samninginn einfaldlega þar sem við tökum upp regluverk Evrópusambandsins umyrðalaust á mörgum sviðum. Ef menn hafa áhyggjur af aðlögun að Evrópusambandinu ættu þeir miklu frekar að hafa áhyggjur af EES, held ég.

Síðan fannst mér hv. þingmaður orða ágætlega einn helsta rökstuðninginn fyrir IPA-styrkjunum sem er einmitt þessi: Af hverju ættum við að eyða fjármunum í að afla okkur þekkingar á regluverki Evrópusambandsins og styrkjakerfi þess ef við förum síðan ekkert þangað inn? IPA-styrkirnir eru einmitt hugsaðir fyrir umsóknarferlið sem við erum í og getur brugðið til beggja vona, annaðhvort segjum við já eða nei, þá er réttlætanlegt að það sé Evrópusambandið sem styrki okkur (Forseti hringir.) til að afla þessarar þekkingar en ekki við sjálf.