140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[12:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um feril þessara mála sem við erum að fjalla um og tímasetningar. Ég kom vel inn á það í ræðu minni að ég gerði alvarlegar athugasemdir við það að fjárlögin væru fyrst samþykkt og síðan kæmu þessar afurðir á eftir, þ.e. sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér og lagafrumvarpið sem við höfum rætt aðeins áður og er næsta mál á dagskrá, en þetta er auðvitað eitt og sama málið, til að uppfylla þau skilyrði sem þarf til að geta sótt um hina svokölluðu IPA-styrki. Það er auðvitað mjög sérkennilegt að þetta sé gert svona, líka í ljósi þess að rammasamningurinn var gerður 8. júlí 2011. Þá lá fyrir að gera yrði þessar breytingar.

Hv. þingmaður spyr líka hvort nefndin hafi verið upplýst um þetta. Ég minnist þess ekki að nokkur umræða hafi verið um það í fjárlaganefnd, og mæti ég á alla fundi þar, að til að þessi liður í fjárlögunum gengi eftir þyrfti að gera þær breytingar sem við erum að vinna með núna. Ég held að þetta sé enn eitt dæmi um það hvernig haldið er utan um málið og hvernig það er unnið og er mjög ámælisvert. Þegar lá fyrir að þessar 496 millj. kr. kæmu inn á fjárlögin 2012 var engin umræða um hvað þyrfti að gera til að það gengi eftir. Það lá ekki fyrir að til að uppfylla skilyrðin um styrkina þyrfti bæði að gera breytingar á skattalöggjöfinni og afgreiða þessa þingsályktunartillögu frá hæstv. utanríkisráðherra.

Hv. þingmaður spurði líka: Hvað gerist ef þetta gengur ekki eftir? Þá uppfyllum við náttúrlega ekki skilyrðin fyrir umsókninni um IPA-styrkina. Þá þarf að minnka fjárlögin um 496 milljónir að mínu mati, það hljóta að vera fyrstu viðbrögðin. Ef skilyrðin til að taka við styrkjunum eru ekki uppfyllt hlýtur að þurfa að falla frá þeim.