140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[12:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að hv. þingmaður er skyldurækinn maður og mætir vel á fundi og þess vegna hefur ekkert farið fram hjá honum í fjárlaganefnd um þetta. Mér finnst þær upplýsingar sem þingmaðurinn kemur fram með hér, frú forseti, vera vitnisburður um afar ámælisverð vinnubrögð hjá meiri hluta fjárlaganefndar og væntanlega hæstv. fjármálaráðherra að koma með slíkar hugmyndir inn í fjárlagagerðina án þess að upplýsa allt um það hvernig þyrfti að afgreiða málið, á hvaða forsendum og hvað þyrfti að gera til að til þessara greiðslna kæmi.

Þingmaðurinn nefndi undir lokin að það þyrfti að lækka fjárlögin sem þessu nemur, ef þingið samþykkir ekki þessa tillögu. Hæstv. utanríkisráðherra sagði við 1. umr. að ef þingið samþykkti þetta ekki þyrfti að hans mati að greiða þessa styrki úr ríkissjóði. Hvað finnst þingmanninum um það?