140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[12:07]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að menn átti sig á því og viðurkenni að þeir styrkir sem Evrópusambandið býður Íslandi sem umsóknarlandi eru til að aðlaga íslenska stjórnsýslu og uppbyggingu stofnana að kröfum Evrópusambandsins, annars væru þeir ekki í boði. Það er fráleitt af hálfu ýmissa þingmanna að segja að þetta sé ótengt, það er fráleitt og það er rangt.

Hitt vil ég minna á að það lá alls ekki ljóst fyrir þegar var farið út í þessa styrkjavegferð hvort heimild væri til að taka við þeim í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var um aðild að Evrópusambandinu eða greinargerðinni með henni. Lengi vel töldu menn að það væri heimild fyrir því þar og þyrfti ekki að sækja sérstaka heimild. (Gripið fram í.)

Í bréfi sem forsætisráðuneytið og ráðuneytisstjóri forsætisráðherra sendu sem dreifibréf á öll ráðuneytin svo snemma sem 18. ágúst árið 2010 er hvatt til þess að umsóknir um IPA-styrki séu sendar inn, eins og segir í bréfinu, með leyfi forseta:

„Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir því að öll ráðuneyti skili tillögum að verkefnum til IPA stoðhópsins fyrir lok þessarar viku, þ.e. í síðasta lagi föstudaginn 20. ágúst árið 2010.“

Hvergi er minnst á fyrirvara um að það þurfi heimild Alþingis til að sækja um þessa peninga, hvergi.

Þarna brást ég strax við og hafnaði því fyrir hönd míns ráðuneytis að sækja um fjármagn til aðlögunar á íslenskri stjórnsýslu eins og þarna var verið að fara fram á í bréfi frá 18. ágúst árið 2010.

Þetta vil ég bara upplýsa hér, frú forseti.