140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[12:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er mjög merkilegt sem kom fram hjá hv. þingmanni en ég hafði ekki áttað mig á og það er auðvitað eðlileg skýring á því vegna þess að þetta dreifibréf frá forsætisráðuneytinu og hæstv. forsætisráðherra þar sem verið er að beina þeim tilmælum til fagráðherranna að sækja um IPA-styrki er dagsett 18. ágúst 2010. Hv. þingmaður kom líka inn á það í andsvari sínu, og hefur gert það áður í ræðum, að hugsanlega er verið að ganga mun lengra í þessu efni en gert var ráð fyrir í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var 2009. Það segir allt sem segja þarf um málið að þegar forsætisráðuneytið og hæstv. forsætisráðherra senda út þetta bréf út virðast menn ekki gera sér grein fyrir því hvað í raun og veru felst í skilyrðunum fyrir að sækja um IPA-styrkina frá Evrópusambandinu. Þessar upplýsingar gefa mun skýrari mynd af málinu því að sá samningur sem var gerður um að sækja um IPA-styrki til aðlögunar að Evrópusambandinu er gerður 8. júlí 2011. Þá kemur fram að það þurfi að gera ákveðnar breytingar og um það snúast þessi tvö mál sem við erum að ræða núna, tæpu ári eftir að sá samningur er gerður. Ég fór vel yfir það í ræðu minni að ég var mjög ósáttur við það.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að það kemur mjög skýrt fram í samningnum, og stendur nánast í 1. gr. hans, að styrkirnir eru hugsaðir sem fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur til að gerast aðili að Evrópusambandinu. Þetta er algerlega kýrskýrt og ég tek undir með hv. þingmanni að menn þurfa ekki að deila um það hvort menn eru í aðildarviðræðum eða aðlögunarviðræðum. Það kemur skýrt fram í samningnum að forsendan fyrir því að geta sótt um IPA-styrki er að vera í þessum aðlögunarviðræðum.