140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[12:11]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil árétta þetta enn frekar því að ég sem ráðherra kynnti þessi mál mjög rækilega. Það sem mér líkar svo illa í þessu er laumuspilið. Hvers vegna getum við bara ekki tekist á um hvort þiggja eigi mútufé frá Evrópusambandinu til að aðlaga íslenska stjórnsýslu og búa okkur undir aðild? Um það snýst þetta. Þetta er fé sem Evrópusambandið býður og í raun krefst þess hálfvegis að við tökum við því til að aðlaga íslenska stjórnsýslu að Evrópusambandinu.

Þetta kemur líka skýrt fram í skýrslu utanríkisráðherra sem við ræddum fyrr í vor en þar segir, með leyfi forseta:

„Landsáætlanir fyrir árið 2012 og 2013“ — þ.e. forsendur fyrir IPA-styrkina — „eru í undirbúningi. Á árinu 2012 verður áhersla lögð á undirbúning fyrir þátttöku í stoðkerfissjóðum og á árinu 2013 á uppbyggingu stofnana.“

(Forseti hringir.) Hvað er það annað en hrein og klár aðlögun? Það er enda eðlileg krafa Evrópusambandsins en líka enn þá eðlilegra að við höfnum þessu.