140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[12:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í fyrra svari mínu að það lægi alveg klárt fyrir hvert væri tilefni þess að Evrópusambandið byði IPA-styrki. Það kemur mjög skýrt fram í samningnum og mér finnst við ekki þurfa að staldra mikið lengur við það. Hugsunin er skýr hvernig samningurinn er útfærður. Þeir sem sækja um aðild stefna auðvitað að því að gerast aðilar að Evrópusambandinu, það liggur klárt fyrir. Til að svo megi verða, meðan ríki eru í viðræðuferlinu, er úthlutað IPA-styrkjum til að viðkomandi ríki geti gert breytingar á stjórnsýslu sinni til að uppfylla skilyrði fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þetta liggur alveg klárt fyrir og allir útúrsnúningar einstakra hv. þingmanna um að þetta séu ekki aðlögunarstyrkir falla algerlega um sjálfa sig, það eru algerlega innihaldslaus rök.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við eigum bara að taka umræðuna út frá því, einmitt á þeim nótum og svo getum við deilt um það hvort við viljum fara þarna inn eða ekki. En þessi feluleikur er algerlega óþolandi.