140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

lengd þingfundar.

[15:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það eru orðnir fastir liðir eins og venjulega að greiða hér atkvæði um lengd þingfundar en það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, hér er allt stopp vegna þess að málin sem eftir á að semja um á milli ríkisstjórnarflokkanna eru enn þá föst í nefndum. Hér er ekki um að ræða óbilgjarna stjórnarandstöðu, hér er ekki um að ræða grásleppukarl sem nennir ekki að vitja neta sinna eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra segir, heldur er um að ræða grásleppukarl sem gleymdi óvart að setja út netin þannig að það er ekki neins að vitja. Bændurnir sem ætluðu að fara að vitja uppskerunnar gleymdu líka að sá og þeir gleymdu líka að plægja. Um það snýst þetta og ég tek undir með hv. þingmanni, að í stað þess að vera með þingfund fram eftir nóttu sem er algjör markleysa legg ég til að við höfum þingfund fram á síðdegið og leyfum nefndum (Forseti hringir.) að hafa kvöldið og nóttina þess vegna.