140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:10]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Við ræðum 2. dagskrárliðinn, samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (reglur um fjárhagsaðstoð við Ísland, IPA).

Ég vil fyrst gera þá athugasemd að ég hefði kosið að í dagskránni hefði þessi skammstöfun, IPA, verið íslenskuð. Þetta er ekki nafn á stofnun eða þess háttar, þetta er ensk skammstöfun og íslenska er auðvitað þingmálið. Það er svolítið misvísandi að tala um fjárhagsaðstoð, þetta er fjárhagsaðstoð en hún er meira. Þetta er „Instrument for Pre-Accession Assistance“ sem þýðir meðöl til aðlögunaraðstoðar eða tæki (ÁÞS: Það er ekki aðlögun.) til aðlögunaraðstoðar, Pre-Accession. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frammíkallið því það hjálpar mér áfram með ræðu mína. Kjarni ræðu minnar er að fjalla um það að hér er í gangi aðlögun og ekkert annað en aðlögun og áfram aðlögun. (Gripið fram í: Rétt.)

Þrátt fyrir skýran tilgang þessara aðlögunarstyrkja þá neita menn blákalt að aðlögun sé í gangi. Ég skora á hv. þm. Árna Þór Sigurðsson að gera nánari grein fyrir þeim fullyrðingum, sem ég kalla blekkingu. Samningar eru í raun ekki í gangi heldur aðlögun að tilskipunum, að reglukerfi ESB. Atkvæðagreiðsla um svonefndan samning eða svonefnt samningsferli fer ekki fram fyrr en við höfum að öllu eða langmestu leyti lögfest regluverk ESB. Það er fróðlegt í þessu samhengi að spyrja ESB-sinna, þar með talda hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, hvað hafi áunnist í samningaviðræðum undanfarin tæp þrjú ár, í samningaviðræðum Íslendinga við ESB, sem felur í sér frávik frá regluverki ESB. Hvaða ávinningum höfum við náð í þessum samningum öðrum en að aðlaga blákalt að regluverki? Getur hv. þingmaður og hæstv. ráðherra nefnt svona fimm, sex til tíu dæmi um það að okkur hafi orðið ágengt í að sveigja eða breyta regluverkinu í þágu íslenskra hagsmuna? Við erum að aðlaga okkur að fjórfrelsinu og halda menn virkilega að við fáum undanþágu frá því? Fáum við undanþágu frá fiskveiðum utan 12 mílna? Nei, það stendur alveg klárt og kvitt í samningsgögnum. Fáum við að viðhalda tollum á matvörum í þágu landbúnaðar? Nei, það er andstætt fjórfrelsinu. Við fáum ekki undanþágur í þágu matvælaöryggis, fæðuöryggis og þar með gagnvart okkar einstæðu húsdýrakynjum sem við búum við, þ.e. gagnvart dýraheilbrigðinu. Hér eru stofnar hesta, kinda, kúa og fleiri dýra sem eru afar viðkvæmir fyrir öllum sjúkdómum sem grassera á Evrópusvæðinu.

Besta dæmið um þetta er þegar við innleiddum matvælafrumvarpið á sínum tíma, árið 2009 hygg ég að það hafi verið eða 2010. Þá var bannaður innflutningur á hráu kjöti vegna dýraheilbrigðis, vegna matvælaöryggis og þar fram eftir götunum og með tilvísun í 13. gr. EES-samningsins. Nú hefur ESA tekið það mál upp vegna þess að innleiðingin á matvælafrumvarpinu var að þeirra mati ekki í samræmi við regluverk ESB. Það er svo kýrskýrt dæmi um að við þurfum að aðlaga okkur að óbreyttu kerfi. Og enn ítreka ég að e.t.v. getur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem hér er í salnum upplýst þingheim um það hvort eitthvað hafi áunnist í tæplega þriggja ára samningaviðræðum sem fer á skjön við regluverk ESB.

Nú herðir ESB áróðurstökin, ekki bara með milljarðaaðlögunarstyrkjum til að kaupa velvild heldur streyma nú út áróðursblöð í landbúnaði og fyrir ungt fólk. Hér hefur verið sett upp Evrópustofa, sendiráð og leikurinn er eins ójafn fjárhagslega og hægt er að hugsa sér. Ég spyr: Af hverju hefur ekki verið gætt jafnræðis þannig að andstæðingarnir njóti sama stuðnings, jafnvel IPA-styrkja og þeir sem styðja aðild? Það liggur fyrir að meginforsendur ESB-umsóknar samkvæmt greinargerð með þingsályktunartillögunni eru brostnar. Reyndar hef ég ávallt talið að það hafi verið blekking allt frá upphafi að við næðum fram þeim grundvallarsamningsforsendum sem kveðið er á um í greinargerð með aðildarumsókninni, hrein blekking.

Nú tæplega þremur árum eftir að aðildarumsókn var lögð fram liggur fyrir að umsóknarferli Íslands að ESB verður ekki fram haldið nema vikið sé í verulegum atriðum frá þeim meginhagsmunum sem meiri hluti utanríkismálanefndar dró fram í áliti sínu. Mér finnst allt í lagi þó að ESB-sinnar komi fram og lýsi yfir stuðningi sínum við sambandið á grundvelli regluverks þess og það sé ekkert feimnismál. Umboð ríkisstjórnarinnar til að halda áfram með aðlögunar- og aðildarvinnu er ekki fyrir hendi. Það hefur komið í ljós, sem reyndar var svo sem vitað eða ég hélt fram á sínum tíma, að umsóknarferlið var með öðrum hætti en haldið hefur verið fram af talsmönnum þess þegar umsóknin var lögð fram. Kröfur ESB eru einhliða og ganga mun lengra en Alþingi hefur heimilað ríkisstjórninni að byggja samningsgrundvöll sinn á.

Það er eitt sem blasir við þegar maður talar um aðlögunarferli og það er að sett hafa verið opnunarskilyrði á einstaka kafla og það kann að koma til lokunarskilyrða ef við tökum ekki upp löggjöf Evrópusambandsins. Opnunarskilyrðin eru þannig að við verðum að byrja þá vinnu sem þarf til að aðlaga sjávarútveginn eða landbúnað réttara sagt að regluverki ESB. Meðan við byrjum ekki á því, það liggur fyrir, liggja fyrir hendi opnunarskilyrði. Ef er ekki búið að aðlaga og taka upp regluverkið á samningsferlinu og áður en kaflanum er lokað þá eru sett lokunarskilyrði. Þetta er þekkt í nýrri umsóknarvinnu ESB gagnvart löndum í Austur-Evrópu. Það er krafist fyrirframaðlögunar íslenskrar stjórnsýslu og stofnana að ESB án þess að niðurstaða sé fengin í viðræðum, þ.e. án þess að atkvæðagreiðsla liggi fyrir um samþykkt þjóðarinnar. Og það er hér, akkúrat hér á þessu stigi málsins, sem aðlögunar- og IPA-styrkirnir skipta veigamiklu máli.

Þá hefur hæstv. utanríkisráðherra sjálfur sagt að aðild að sambandinu muni fela í sér umtalsverðan kostnað vegna krafna ESB um uppstokkun. Það hefur komið í ljós að vegna þessara fyrirframaðlögunarkrafna fellur þessi kostnaður strax á umsóknarferlinu. Það er sorglegt til þess að vita að á meðan þjóðin er að vinna sig upp úr verulegri kreppu, heimilin stríða við mikinn skuldavanda, að öll atorka ráðuneytanna eða mikið af atorku ráðuneytanna hefur farið í þessa vinnu. Ég hugsa oft til þess hvar við stæðum í upprisunni fyrir heimilin og hvar skuldsett fyrirtæki stæðu ef þessi atorka hefði farið í þá vinnu og mannvitið hefði verið brúkað til þess.

Það er gerð krafa um framsal á fullveldi og það eru settar fram einhliða kröfur og skilyrði sem eru óásættanleg fyrir íslenska hagsmuni.

Ég verð að nefna það hér að ESB og fulltrúar þess hafa nú þegar ástundað beina íhlutun í íslensk innanríkismál í skjóli umsóknarinnar, samanber ályktun Evrópuþingsins frá 14. mars sl., og krafist fylgispektar Íslands á alþjóðavettvangi. Efnisleg inngrip ESB í íslenskt þjóðfélag hafa alvarlegar afleiðingar og eru ekki í samræmi við forsendur umsóknarinnar. Það felur annars vegar í sér að með því er verið með peningagjöfum, með peningastyrkjum sem stýrt er frá Brussel, að hafa áhrif á atvinnu, á afstöðu manna til ESB-aðildar og almenna skoðanamyndun í landinu. Það er verið að kaupa velvild með umsókninni, það er verið að því.

Ekki vil ég gleyma í þessu samhengi framgangi ESB í makríldeilunni og hótunum í garð Íslendinga um viðskiptaþvinganir samtímis því sem aðildarviðræður standa yfir. Er það ekki glöggt dæmi um það, afar skýrt dæmi um það, að forsenda umsóknarinnar, um veiðar úr deilistofnum, að við fáum að ráða yfir deilistofnum, makrílnum m.a., séu brostnar? Er það ekki? Hvað hefur síðan gerst? Jú, ESB hefur gerst formlegur málsaðili í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum og það segir auðvitað alla sína sögu í því samhengi.

Það var reyndar svo og ég hef haldið því fram að Icesave-samningurinn var skilgetið afkvæmi umsóknarinnar, eineggja tvíburi umsóknarinnar, og að umsóknin hefði verið endursend ríkisstjórninni þá þegar ef ekki hefðu legið fyrir hendi samningsdrög um Icesave í upphafi júní 2009. Ég fullyrði það. Afstaða Evrópusambandsins gagnvart okkur í Icesave-málinu var þá löngu ljós og það var þegar ljóst á útmánuðum árið 2008 þegar við þingmenn Vinstri grænna börðumst hatrammlega gegn ábyrgð á samningnum. Þá blandaði ESB sér strax í málið og hafði uppi hótanir ásamt Bretum, Þjóðverjum, Frökkum, Hollendingum og fleirum, þá þegar. Þá reistum við, þáverandi þingmenn VG, kröftugan varnarmúr undir forustu hv. formanns flokksins, Steingríms J. Sigfússonar.

Nú hafa forsendur á evrusvæðinu breyst verulega frá því að umsóknin var send inn. Evran hefur ekki reynst sú vörn sem menn ætluðu. Hún hefur reynst dragbítur m.a. fyrir Grikki og aðra og þessi lönd eiga í verulegum efnahagserfiðleikum mörg hver og þau geta ekki beitt þeim efnahagslega sveigjanleika sem við getum með íslenskri krónu.

Það er undarlegt, frú forseti, að stjórnarliðar skulu afneita því að aðlögun sé í gangi. Hverja eru þeir að blekkja? Kannski sjálfa sig. Lítum á aðlögunarfrumvörp sem liggja fyrir og hafa legið fyrir þessu þingi. Þau eru hvorki færri né fleiri en 34, 34 aðlögunarfrumvörp sem liggja fyrir og okkur er gert að lögafgreiða þessi frumvörp. Við eigum ekki að hafa neina afstöðu til þess og ég minni aftur á hráa kjötið. Samrýmist það vel 2. gr. stjórnarskrárinnar um að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið? Við höfum ekki aðkomu að þessum málum, við höfum engan breytingarrétt. Við breyttum með erfiðismunum og settum inn bann við hráa kjötinu í matvælafrumvarpinu og nú hljótum við ákúrur fyrir.

Því miður er það svo að við höfum ekki borið gæfu til á þessu þingi að fara eftir ályktun þingmannanefndarinnar sem lagði sérstaka áherslu á að settar yrðu skýrar reglur um innleiðingu EES-gerða sem tryggðu m.a. góð vinnubrögð og vandaðar þýðingar á EES-gerðum. „Ástæða er til að skoða vandlega hvort Alþingi setji á fót sérstaka nefnd sem hefur það hlutverk að rýna allar EES-gerðir ...“ Nei, það ber allt að sama brunni.

Ég vil að endingu víkja, í ljósi alls þess sem ég hef sagt í ræðustól nú, að ummælum hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar í eldhúsdagsumræðum í gærkvöldi, með leyfi frú forseta. Tilvitnunin er svona:

„En aftur að Stefan Füle stækkunarstjóra. Í fyrsta skipti þótti mér viðurkennt af hálfu talsmanns Evrópusambandsins að hraði viðræðna er háður vilja samningsaðila. Hitt er öllum ljóst og hefur lengi verið að endanlegur frágangur samninga getur tekið miklu lengri tíma með aðlögun, fínsaumi og bróderingum. Það er hins vegar ekki verkefnið.“

Svo vísar hann í hlutskipti Norðmanna fyrir 20 árum og að þeir hafi nánast verið lagðir í einelti af ESB. Hvað gerist þá í okkar tilviki ef við samþykkjum ekki samninginn? Nei, það er rangt hjá hæstv. innanríkisráðherra að við séum ekki í aðlögun, fínsaumi og bróderingum. Það er bara rangt og ég beini því vinsamlega til hæstv. innanríkisráðherra að taka þátt í þessari umræðu og skýra betur ummæli sín. Það má vel vera að hæstv. innanríkisráðherra geti í sömu mund skýrt það fyrir þingheimi hvernig þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs getur varið og stutt þessa aðlögunar-IPA-styrki þvert á samþykktir æðstu stofnana flokksins. Verkefnið er svo greinilega aðlögun, fínsaumur, bródering. Það er ekkert annað. Norðmenn voru ekki að því. Þeir gerðu rammasamningana en þeir aðlöguðu ekki sína löggjöf. Eftir þá reynslu tók ESB upp breytta samningshætti og krafðist innleiðingar og að samningur væri ekki fullgerður, samningsköflum væri ekki lokað fyrr en regluverkið í viðkomandi samningslandi væri hið sama og regluverk ESB.

Svo er það, frú forseti, að þessu þingmáli fylgir annað, frumvarp þar sem hin svokallaða norræna velferðarstjórn vill lögfesta skattfríðindi sem minnir mig á skattfríðindi aðalsins á fyrri öldum. Hér er það hins vegar ESB-umsóknaraðallinn sem á að fá skattfríðindin. Mér finnst það með hreinum ólíkindum og ég hef spurt mig að því: Hvernig má það samrýmast jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og samkeppnisreglum að veita þessum verktökum og öðrum skattfríðindi? Eru það ekki hin sömu skattfríðindi og fulltrúar og sendimenn í Brussel njóta eða er það eitthvað svipað? Er hér verið að veita eða búa til ESB-forréttindaaðal? Ég spyr. Þetta finnst mér afar dapurlegt. Eigum við ekki fremur, frú forseti, að hækka skattleysismörkin fyrir einstæða foreldra, ellilífeyrisþega, öryrkja og annað lágtekjufólk á Íslandi? Ég hygg að það væri nær. En fyrir mér er Vinstri hreyfingin – grænt framboð gengin í björg og það eina sem flokkurinn á eftir að segja er að hann styðji ESB-aðildina og það væri heiðarlegasta afstaða hans.