140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þau ummæli hæstv. utanríkisráðherra að við séum ekki í aðlögun þá hefur sá ágæti ráðherra sagt það margoft úr þessum stól og annars staðar, en hann verður bara að eiga það við sjálfan sig. Það stendur hér svart á hvítu, það er ekki hægt að skilja þau orð í þessum rammasamningi sem er á milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á annan hátt en að við séum í aðlögun þegar maður les setningu eins og þessa í 3. gr. þar sem fjallað er um markmið, með leyfi forseta:

„Til að stuðla að samvinnu sín á milli og undirbúa aðstoðarþegann í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins, þar á meðal eftir því sem við á réttarreglur þess, með aðild í huga, …“

Hvernig á að vera hægt að skilja þetta á annan hátt? Ég get ekki séð hvernig hæstv. utanríkisráðherra nær að búa til þá leikfléttu og þann orðaflaum að reyna að sannfæra menn um að þetta sé ekki aðlögun. Ég skil heldur ekki alveg, frú forseti, tilganginn hjá hæstv. utanríkisráðherra að reyna að afneita þessu. Ég skil ekki tilganginn með því. Ef menn vilja fara í Evrópusambandið þá vita menn og geta lesið um það á heimasíðu Evrópusambandsins hvernig það ferli gengur fyrir sig. Það er um aðlögun að ræða og hefur verið hjá öllum þeim þjóðum sem hafa gengið í Evrópusambandið, þær sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu fara þennan farveg og reyna að aðlaga réttarreglur sínar að Evrópusambandinu vegna þess að það er almennt þannig að þær þjóðir sem sækja um aðild að Evrópusambandinu vilja ganga í Evrópusambandið. Hér erum við hins vegar ekki í þeirri stöðu að ríkisstjórnin hafi sannfæringu fyrir því að þetta sé rétta leiðin, virðist vera, fyrst þeir geta ekki talað hreint út um hlutina og kallað hlutina réttum nöfnum.