140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar sem hv. þm. Jón Bjarnason kemur með. Hann var beinlínis að segja að athafnaleysi hans sem ráðherra, að fara að íslenskum landslögum, hafi kostað hann ráðherrasætið. Af þeirri einföldu ástæðu að hann segist ekki taka á móti styrkjunum vegna þess að við Íslendingar höfum ekki lagaheimild fyrir því kostaði það hann ráðherrastólinn. Þetta er athyglisvert, frú forseti. Rökstuðningurinn sem hv. þingmaður hefur jafnframt er akkúrat sú þingsályktunartillaga sem liggur fyrir hér og svo skattleysisfrumvarpið sem við ræðum þegar þessari umræðu lýkur.

Þetta hefur ríkisstjórnin komist upp með allan þennan tíma. Það er ógeðfellt að hugsa til þess að undirbúningur skuli hafinn í stjórnsýslunni að beiðni hæstv. forsætisráðherra að því að sækja um styrki sem ekki er lagaheimild fyrir. (Forseti hringir.) Það verður ekki heimilt fyrr en þessi þingsályktunartillaga er komin í gegnum þingið því að það er beinlínis kveðið á um það í gildistökuákvæði hennar.