140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur bæði í ræðu og fyrri andsvörum rifjað aðeins upp ákveðna þætti sem varða aðdraganda þessa máls, þ.e. málsmeðferð þeirrar ríkisstjórnar sem hann átti aðild að til síðustu áramóta.

Það vakti athygli okkar sem höfum áhuga á þessum málum þegar ákveðin breyting varð á aðkomu ríkisstjórnarinnar að þessum málum í fyrravetur. Ég hygg að það hafi verið nálægt áramótum 2010/2011. Þá minnir mig að gerð hafi verið einhvers konar samþykkt í ríkisstjórn um málsmeðferð varðandi IPA-styrki eða styrki vegna aðildarumsóknarinnar. Í grunninn virðist verkefnið að sækja um styrki hafa flust frá einstökum ráðherrum til annars vegar (Forseti hringir.) ráðherranefndar um Evrópumál og hins vegar til samninganefndarinnar. (Forseti hringir.) Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort það hafi hugsanlega verið vegna þess að fleiri (Forseti hringir.) hæstv. ráðherrar VG hafi verið óvissir um hvernig þeir ættu að bregðast við í sambandi við þessa (Forseti hringir.) IPA-styrki en hann sjálfur.