140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Það féllu orð hér í þingsalnum af hálfu hv. þm. Atla Gíslasonar, sem áður var þingmaður Vinstri grænna og í þeim flokki, á þá leið að samið hefði verið um það af hálfu einhverra aðila innan Vinstri grænna fyrir síðustu alþingiskosningar að sótt skyldi um aðild að Evrópusambandinu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum sé kunnugt um að slíkt samkomulag hafi verið í gangi og ef svo er, hvort það hafi ekki farið fyrir brjóstið á hv. þingmanni að Vinstri grænir fóru fram í þeirri kosningabaráttu undir þeim formerkjum að þeir væru alfarið andsnúnir því að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu og töldu þar af leiðandi kjósendum trú um að þeir mundu ekki vera aðilar að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu.