140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:48]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er skýr í þessum efnum. Við viljum ekki gerast aðilar að Evrópusambandinu. Stefna flokksins fyrir kosningar var sú að við mundum ekki standa fyrir umsókn að Evrópusambandinu og fyrir því talaði ég og miklu fleiri frambjóðendur flokksins. (Gripið fram í.) Það var alveg ljóst. Hins vegar var þetta, eins og hv. þingmaður vék að, eitt af fyrstu málunum sem komu inn á fund þingflokksins varðandi ríkisstjórnarmyndun í maí að loknum kosningum að það væri ófrávíkjanleg krafa að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Ég var ekki sammála því, ég taldi að ríkisstjórnin sem þá átti að mynda ætti fyrst og fremst að taka á aðsteðjandi viðfangsefnum, endurreisn og uppbyggingu atvinnulífsins, efnahagslífsins, í kjölfar bankahrunsins o.s.frv. Það ætti að vera meginmálið en ekki að fara beint inn í stórhættulegt dekurmál annars flokksins, Samfylkingarinnar, sem var að sækja um aðild að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Mér fannst fráleitt að það ætti að vera svona stórt áhersluatriði í þeirri ríkisstjórnarmyndun og þess vegna var ég líka andvígur (Forseti hringir.) því og greiddi atkvæði gegn því að þetta (Forseti hringir.) færi með í þann stjórnarsáttmála.