140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fara yfir það í þingræðu sem ég fór yfir í andsvari áðan um þróun IPA-styrkjanna. Árið 1994 var mikið stækkunarferli í gangi í Evrópusambandinu þegar meðal annars var gerð hörð hríð að því á Norðurlöndunum að ganga í sambandið. Fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það samhliða á öllum Norðurlöndunum sem endaði með því að Noregur, eitt landanna, hafnaði aðild að Evrópusambandinu. Svipuð hrina umsókna varð árið 2003 þegar Eistland, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvenía, Slóvakía, Tékkland og Ungverjaland gengu í sambandið en þeim þjóðum var öllum þrælað í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi mál. En á þessum tíma, árið 2003, voru þessir aðlögunarstyrkir komnir til, IPA-styrkirnir sem við ræðum hér og TAIEX-styrkirnir. Við sjáum hvernig Evrópusambandið vinnur, heilu landsvæðin eru tekin og þau gerð háð Evrópusambandinu. Bæði landsvæðin, Norðurlöndin upp úr 1990, gengu í gegnum gríðarlega kreppu á þessum tíma eftir fall Sovétríkjanna og austantjaldslöndin voru nánast tekin og hernumin af peningaflæði Evrópusambandsins sem önnur ríki sambandsins þurfa að standa undir.

Króatía samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á þessu ári að ganga til liðs við sambandið og var ég svo lánsöm að hitta hér þingmenn frá Króatíu sem töluðu mjög fyrir því, og reyndu að heilaþvo íslenska þingmenn, að það eina sem við gætum gert væri að ganga þarna inn. En við Evrópusambandsandstæðingar spyrnum við fótum vegna þess að hér er um hreina aðlögun er að ræða. Með því að samþykkja að taka við þessum fjármunum Evrópusambandsins finnst mér að ríkisstjórnin sé nokkru leyti að ná ákveðnu máli í gegn, þ.e. að opna á það að stofnanir samfélagsins geti farið að taka við þessum peningum og aðlaga sig að regluverki Evrópusambandsins og því er ég alveg á móti.

En varðandi upphafið þegar Noregur hafnaði þessu svo eftirminnilega í þjóðaratkvæðagreiðslu felldi Sviss á sama ári EES-samninginn og þegar þjóðarviljinn var klár þar gagnvart EES-samningnum sáu stjórnvöld þess tíma sína sæng upp reidda og drógu aðildarumsóknina til baka og hún hefur legið óhreyfð síðan. Þetta hef ég farið yfir en árið 1994 þegar Noregur hafnaði aðild varð mikið uppnám hjá Evrópusambandinu vegna þess að Evrópusambandið ætlar aldrei að tapa kosningum en þarna fékk sambandið það óþvegið, nei-ið frá Norðmönnum, og það skal líka fá það óþvegið frá okkur Íslendingum þegar við fáum að greiða atkvæði um hvort halda eigi áfram eða ekki.

Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að því í morgun hvort hann vissi til þess að Evrópusambandið hefði gert kröfu á Möltu þegar Maltverjar hvíldu umsókn sína á árunum 1996–2000 um að endurgreiða styrkina sem þeir höfðu þegar þegið. Að sjálfsögðu var ekkert svar að fá frá hæstv. utanríkisráðherra þannig að við þurfum að leggjast í þá rannsóknarvinnu hvort svo hafi verið, því að það er greinilega málstaðnum ekki til hagsbóta samkvæmt skilningi hæstv. utanríkisráðherra að það verði upplýst. En þetta er grundvallarspurning vegna þess að ef það kemur í ljós er búið að skapa fordæmi fyrir því að ríki í umsóknarferli þurfi að endurgreiða. Ef svo er ekki og ekki eru til upplýsingar um þessi mál þá er samkvæmt hæstv. utanríkisráðherra í mörgum viðtölum engin lagastoð fyrir því að umsóknarríki eigi að endurgreiða IPA-styrkina verði sagt nei í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hæstv. forseti. Ég gaf hæstv. utanríkisráðherra tækifæri á því í morgun að koma fram í eitt skipti og segja sannleikann í málinu og út af því lagði ég þessa fyrirspurn fram í fyrirspurnatíma í morgun. Ég er frekar slegin yfir svörum hæstv. utanríkisráðherra þegar hann fullyrðir að ekkert í lögum Evrópusambandsins segi að greiða eigi styrkina til baka segi þjóðin nei. Ég benti á að það er heldur ekkert í lögunum sem segir að við eigum ekki að greiða þá til baka þannig að þarna er lagatæknilegt rúm. En, virðulegi forseti, í 16. gr. samningsins, Lok áætlana undir miðlægri og sameiginlegri stjórn, kemur þetta skýrt fram samþykki Alþingi þessa þingsályktunartillögu og við göngum að þessum samningi. Ég ætla að fá að lesa það sem stendur í greininni vegna þess að þarna er komin lagaheimild fyrir því að Evrópusambandið geti farið fram á endurgreiðslu við Ísland, með leyfi forseta:

„2. Eftir að umsókn um lokagreiðslu hefur verið veitt viðtaka, er samningi eða styrk talið lokið um leið og einn af eftirfarandi atburðum á sér stað:

framkvæmdastjórnin innir af hendi lokagreiðslu,

framkvæmdastjórnin gefur út kröfu um endurgreiðslu eftir viðtöku umsóknar um lokagreiðslu,

lúkning fjárveitingar af hálfu framkvæmdastjórnarinnar.“

Svo kemur aðalatriðið í þessu máli með leyfi forseta:

„3. Lúkning samnings eða styrks rýrir ekki rétt framkvæmdastjórnarinnar til að gera fjárhagslega leiðréttingu síðar.“

Ég ætla að lesa þetta aftur til að leggja áherslu á mál mitt, frú forseti: „Lúkning samnings eða styrks rýrir ekki rétt framkvæmdastjórnarinnar til að gera fjárhagslega leiðréttingu síðar.“

Hér er komin lagastoðin fyrir því að við þurfum að endurgreiða IPA-styrkina segi þjóðin nei í þjóðaratkvæðagreiðslu, því að þarna er verið að færa framkvæmdastjórninni rétt til að gera leiðréttingu síðar meir. Mér finnst það mjög alvarlegur hlutur þegar hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki þekkja sinn eigin samning sem hann leggur fyrir þingið, sérstaklega í ljósi þess að samningurinn var undirritaður síðastliðið sumar í Brussel fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar og okkar Íslendinga sem kallast aðstoðarþegi í samningi þessum. Þetta eru grafalvarlegir hlutir og sér í lagi þegar við skoðum dómakaflann í samningnum þar sem kemur fram að Evrópusambandið skuli njóta friðhelgi á íslensku yfirráðasvæði gagnvart málshöfðun og málarekstri að því er varðar deilumál milli Evrópusambandsins og/eða viðkomandi aðstoðarþega og þriðja aðila eða milli þriðju aðila. Síðan segir í 2. tölulið, með leyfi forseta:

„Aðstoðarþeginn skal verja fyrrnefnda friðhelgi í málarekstri eða stjórnsýslumáli fyrir rétti, dómstóli eða á stjórnsýslustigi á Íslandi og taka afstöðu þar sem eðlilegt tillit er tekið til hagsmuna Evrópusambandsins. Aðstoðarþeginn og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skulu, ef nauðsyn krefur, halda áfram samráði um þá afstöðu sem skal taka.“

Hér liggur það fyrir hvernig þessum málum er háttað með endurgreiðslu þess fjármagns sem hér er reynt að dæla yfir íslenska þjóð og jafnframt hvernig farið er með dómsmál. Ekki einasta er komin hér heimild fyrir því að Evrópusambandið geti rukkað okkur Íslendinga um þá peninga sem hér verður tekið við. Þó það nú væri, hvers vegna ættu þeir að leggja 5.000 millj. inn í íslenskt þjóðarbú eða íslenska stjórnsýslustofnun og svo þegar það er yfirstaðið segjum við nei í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hverjir mundu skilja slíka peninga eftir verði svarið nei, sérstaklega í ljósi orða hæstv. innanríkisráðherra sem sagði hér í gær að Evrópusambandið hefði beitt Norðmenn þvingunum eftir að þeir sögðu nei í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem var þó ekki um aðlögunarferli eins og hér er um að ræða. Og í öðru lagi er það grafalvarlegt að hér er verið að selja dómsvaldið úr landi, eins og gerðist með Icesave-samningana, og hér er beinlínis ákvæði um að íslenska ríkið taki að sér að verja friðhelgi Evrópusambandsins í málum sem kunni að rísa hér á landi vegna laganna um skattfrelsið. Íslenska ríkið er að framselja dómsvaldið til Evrópusambandsins gegn þegnum sínum og gegn landsmönnum. Það er ömurlegt að horfa upp á vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar, frú forseti. Það er ekki hægt að leggja þetta á okkur.