140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga orðaskipti við hv. þingmann um framkvæmdina á þessu máli. Fyrst er sett inn í fjárlögin heimild til þess að taka við 496 millj. kr. og eftir á er komið með þessa þingsályktunartillögu og það frumvarp sem er á dagskrá til að uppfylla skilyrði til að geta tekið við þessum peningum.

Í umræðunum í morgun upplýsti hv. þm. Jón Bjarnason, sem var í andsvari við mig, að 20. ágúst hefði verið skrifað bréf til allra fagráðuneytanna 2010 og þau hvött til að sækja um svokallaða IPA-styrki. Það bréf barst frá forsætisráðuneytinu og hæstv. forsætisráðherra og þá virðist hæstv. forsætisráðherra ekki hafa gert sér grein fyrir því að til þess að sækja um þessa IPA-styrki þyrftu menn að gera ákveðna samninga, svokallaðan rammasamning, sem við erum að fjalla um í þessari þingsályktunartillögu, og síðan að gera breytingar samkvæmt því frumvarpi sem er hér næst á dagskrá.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hver er hennar skoðun á því að hæstv. forsætisráðherra hafi sent þetta bréf og þessa áskorun til fagráðuneytanna í ágúst 2010 og ekki er skrifað undir þennan samning fyrr en í júlí 2011 þar sem hvatt er til að sækja um þessa svokölluðu IPA-styrki? Það kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að hann teldi að í þingsályktunartillögunni sem var samþykkt 16. júlí 2009, þegar ákveðið var að sækja um aðild að Evrópusambandinu, væri ekki að finna heimild til að sækja um svokallaða IPA-styrki. Þess vegna hafnaði hann því á sínum tíma að gera það fyrir sitt ráðuneyti.

Ég vil kalla eftir viðbrögðum hv. þingmanns við þessum vinnubrögðum. Í fyrsta lagi virtist hæstv. forsætisráðherra ekki gera sér grein fyrir hvað þyrfti að gera til að geta sótt um þessa styrki og síðan kemur skrifleg beiðni frá forsætisráðuneytinu um að menn sæki um áður en búið er að gera það sem við erum að gera núna.