140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég man líka eftir því að hér í þinginu var veifað alls konar gulrótum þegar þetta var rætt. Meðal annars var minnst á það hversu mikilvægt það væri að hefja ferlið á meðan Svíar væru í fyrirsvari fyrir Evrópusambandið. Hér er búið að veifa evrum framan í þingmenn og landann í heild eins og evran sé sá aur sem eigi að bjarga öllu. Ég held nú að þeir hljóti að vera í einhverri afneitun sem ekki sjá ástandið á evrusvæðinu í dag og hvernig komið er fyrir gjaldmiðli fyrirheitna landsins.

Ég velti því hins vegar fyrir mér, nú þegar við erum komin þetta langt í þessu ferli og ekki er minnst á þessa styrki í upphafi ferlisins í nefndarálitinu, hvort hægt sé að halda því fram að þær forsendur sem lagt var af stað með séu einfaldlega ekki réttar og eigi þar af leiðandi ekki við í dag. Er hugsanlegur forsendubrestur fyrir umsókninni meðal annars sá að seinna er komið aftan að fólki með þessa styrki og þann fjáraustur sem virðist vera frá Evrópusambandinu til þeirra landa sem eru í ferlinu?

Það þarf enginn að segja mér, frú forseti, að þeir sem gengu hvað harðast fram við að koma af stað þessu ferli hafi ekki vitað að Evrópusambandið hefði í mörg ár rekið þetta kerfi sem ætlað er að aðstoða lönd í aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Það er því óneitanlega sérkennilegt að finna ekki í nefndaráliti meiri hlutans stafkrók um að IPA-styrkir séu handan við hornið, ef má orða það þannig. Ég hlýt því að setja það á listann yfir þær forsendur sem hafa breyst eða voru ekki leiddar fram þegar umræðan fór fram í þinginu.